Kjötsúpa, kandífloss og hoppukastali
- Sigga Dögg kynfræðingur heldur í gamlar hefðir á Ljósanótt og sleppir helst ekki flugeldasýningu
Sigga Dögg heldur í gamlar hefðir þegar kemur að Ljósanótt og væri til í að sjá pop-up markaði sem íbúar myndu sjá um ásamt hverfishátíðum til þess að dreifa traffíkinni í bænum betur. Við spurðum Siggu aðeins út í hvað hún ætlar að gera á Ljósanótt.
Hvað ætlar þú að gera á Ljósanótt og á hvaða viðburði ætlar þú að kíkja?
„Ég verð með fjölskyldunni minni á röltinu og við munum fara á Litlu ljósmyndasýninguna á Soho sem maðurinn minn er með. Svo munum við auðvitað kíkja í kjötsúpu, kandífloss og hoppukastala niðri í bæ og gott ef við reynum ekki að ná Emmsjé Gauta líka. Annars ráða börnin því oftast hvað við náum að komast yfir en við reynum líka alltaf að kíkja á það nýjasta hjá Línu Rut og Sossu.“
Er eitthvað sem þú gerir á hátíðinni á hverju ári?
„Ég fer alltaf til Særúnar frænku í gamla bænum í kvöldverð og fjölskylduhitting á laugardeginum, svo röltum við á tónleikana. Síðan er það alltaf markmið að ná flugeldasýningunni en ég og börnin erum einstaklega kvöldsvæf svo það gengur stundum og stundum ekki.“
Hvað finnst þér vanta á Ljósanótt?
„Ég myndi vilja sjá hverfin taka sig saman með hverfishátíðir þannig að traffíkin myndi dreifast meira um bæinn. Þá fyndist mér skemmtilegt að hafa þar t.d. pop-up markað íbúa þar sem gæti blandast saman bílskúrssala, bakstursbazar og jafnvel list, en mér finnst tónleikarnir í gamla bænum frábær hugmynd og gott framtak. Ég myndi jafnvel líka vilja sjá „Litlu Ljósanótt“ fyrir yngri börn með inni viðburðum og vinnusmiðjum. Fyrir tveimur árum var alls konar matur í boði niður í bæ sem ég hef ekki séð áður og mér fannst það snilld. Það væri frábært ef Ljósanótt væri einnig hátíð matarbílanna og jafnvel væri hægt að gera veitingastaðamarkað líkt og Krás var í Fógetagarðinum í Reykjavík.“