Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kjarnorkuárásirnar í Duushúsum
Þriðjudagur 6. nóvember 2012 kl. 08:06

Kjarnorkuárásirnar í Duushúsum

Kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasaki árið 1945 og afleiðingar þeirra.

Sýning í Bíósal Duushúsa 6. nóv. – 16. des. 2012.

Þriðjudaginn 6. nóvember kl. 13.00 opnar í Duushúsum í Reykjanesbæ fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki árið 1945, margvíslegar afleiðingar þeirra og viðleitni alþjóðasamfélagsins til að vinna gegn  útbreiðslu kjarnavopna. Um er að ræða sýningu sem opnuð var í Reykjavík þann  9. ágúst sl. og fór síðan til Akureyrar í október.  Sýningin  samanstendur af 50 veggspjöldum með ljósmyndum, teikningum og textum á íslensku og ensku og fjallar á áhrifamikinn hátt um geigvænleg áhrif kjarnorkusprengjanna  á íbúa og mannvirki í Hírósíma og Nagasaki.  Alls létust strax eða á fyrstu mánuðunum eftir að sprengjurnar féllu um 214.000 manns og álíka margir hafa fram til ársins 2012 látist af eftirköstum kjarnorkuárásanna. Enn þjást um 227.500 manns, sem bjuggu í Hírósíma og Nagasaki árið 1945, vegna sjúkdóma sem raktir eru til sprenginganna. Á sýningunni er m.a. fjallað um skammtíma- og langtímaáhrif kjarnorkusprenginga á líf og heilsu, um kjarnorkusprengjur, áhrif tilrauna með kjarnavopn á menn og dýr og um tilraunir til samningagerðar á alþjóðavettvangi um takmörkun og eyðingu kjarnavopna. Sýningin er opin virka daga frá 12.00-17.00 og um helgar frá 13.00-17.00.  Einnig má panta tíma fyrir hópa utan hefðbundins opnunartíma.  Aðgangur er ókeypis.

Sýningin var fjölsótt bæði í Reykjavík og á Akureyri og eru íbúar Suðurnesja hvattir til að sjá sýninguna á meðan hún er í Duushúsum í Reykjanesbæ.  Kennarar eru sérstaklega hvattir til að koma með nemendur sína en út frá sýningunni og markmiðum aðalnámskrár var unnin  ítarlegur kennsluvefur ásamt leiðbeiningum: Sjá heimasíðu sýningarinnar http://www.hirosimanagasaki.is/    
Sýningin kemur til Íslands á vegum The Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb, sem starfar á vegum japanska velferðarráðuneytisins og hefur það hlutverk að vinna með fræðslu og upplýsingamiðlun að því markmiði að kjarnorkuvopnum verði aldrei beitt aftur og að varðveita minningu þeirra sem létust í kjarnorkuárásunum eða af  afleiðingum  þeirra.  

Samstarfsaðilar á Íslandi eru: Utanríkisráðuneytið, Duushús í Reykjanesbæ, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Ísl., Menningarhúsið Hof á Akureyri, Listasafn Rvk., Íslensk-japanska félagið, Samstarfshópur friðarhreyfinga, Takanawa ehf., sendiráð Íslands í Japan og sendiráð Japans á Íslandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024