Kiwanismenn í Keflavík heiðra minningu fórnarlamba brunans í Skildi
Þann 30.desember 1935 varð sá hörmulegi atburður að eldur varð laus á jólatrésskemmtun barna í samkomuhúsinu skildi í Keflavik með þeim afleiðingum að 10 manns fórust og margir hlutu alvarleg brunasár.
Á síðasta ári kom út bók um brunann þar sem birt eru viðtöl við þá sem sóttu þessa örlagaríka skemmtun og teknar saman þær fáu heimildir sem til eru um atburðinn.
Höfundur og útgefandi bókarinnar er Dagný Gísladóttir íslenskufræðingur og fyrrum blaðamaður búsett í Keflavík.
Markmið bókarinnar er að minnast þessa atburðar en bruninn er sá mannskæðasti á Íslandi frá því á Sturlungaöld að talið er. Fáar heimildir eru til um brunann í Skildi enda var hann sár þeim sem reyndu og hafði hann mikil áhrif á lítið byggðarlag. En nú eru þau börn sem sóttu jólatrésskemmtunina sem fljótt breyttist í andhverfu sína orðin öldruð og því mikilvægt að aðrir taki við sögunni og haldi henni á lífi.
Leik- og grunnskólar í Reykjanesbæ hafa margir hverjir sinnt þessari sögu og staðið fyrir fræðslu fyrir nemendur sem þá jafnan heimsækja minningarreitinn um brunann.
Kiwanismenn í Keili í Keflavík vildu leggja sitt af mörkum til að styðja við markmið bókarinnar og stuðla að því að saga þessi gleymist ekki.
Því var ákveðið að gefa eitt eintak af bókinni í alla leikskóla á Suðurnesjum og þrjú eintök á alla grunnskóla á Suðurnesjum með von um að skólastjórnendur verði duglegir að miðla innihaldi bókarinnar til nemenda sinna.
Mynd/EJS: Frá afhendingu við minnisreitinn um brunann fyrr í dag. F.v: Dagný Gísladóttir höfundur bókarinnar, Steinar Jóhannsson skólastjóri Myllubakkaskóla, Björn Kristinsson forseti kiwanisklúbbsins Keilis, Inga María Ingvarsdóttir leikskólastjóri og Björn Herbert Guðbjörnsson.