Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 20. september 2001 kl. 09:30

Kirkjustarfið í vetur í Sandgerði og Garði

Vegna nýjunga í helgihaldi í Útskálaprestakalli leituðu Víkurfréttir til Sr. Björns Sveins Björnsson og báðu hann um að greina frá því helsta í safnaðarstarfinu.

Breytingar á helgihaldi í Útskálaprestakalli
Í Útskálaprestakalli eru tvær sóknir, Hvalsnessókn og Útskálasókn, sem að stærstum hluta eru Garður og Sandgerði. Sóknirnar tvær falla undir eitt prestakall sem þýðir að íbúum svæðisins þjónar einn prestur.
Talsverðar breytingar verða á guðsþjónustustarfi í Útskálaprestakalli í vetur frá því sem verið hefur. Guðsþjónustur fara fram annan hvern sunnudag eins og verið hefur og tíðar um hátíðir. Helgistundir fara fram á hjúkrunarheimilinu Garðvangi síðdegis hvern messudag og hafa kórar prestakallsins annast söng fyrir heimilisfólkið.
Helgidómurinn er tilbeiðslu- og samkomustaður þar sem að söfnuðurinn kemur saman til þakkargjörða og fyrirbæna. Kirkjan verður að mæta kalli samtímans og er unnið að því að gera guðsþjónustuna persónulegri og meira aðlaðandi. Í því sambandi verða eftirfarandi breytingar gerðar á guðsþjónustustarfinu:
Í vetur verður boðið upp á breyttan messutíma. Guðsþjónustur/messur verða í vetur til skiptis í sóknunum kl. 17:00 og 20:30 á sunnudögum. Í þriðja hvert skipti verða guðsþjónustur kl. 14 sem helgast m.a. af því að fólk kýs fremur að skíra fyrra hluta dags. Síðdegis- og kvöldmessurnar í Hvalsnessókn verða í safnaðarheimilinu í Sandgerði en þær sem eru kl. 14 verða í Hvalsneskirkju.
Í lok sérhverrar guðsþjónustu verður boðið upp á fyrirbænastundir þar sem fólk getur bæði fengið fyrirbæn eða kveikt á kerti og beðið sjálft hljóðrar bænar.
Að lokinni guðsþjónustu verður boðið upp á Suðurnesjakaffi frá Kaffitári. Kaffi verður á könnu í kirkjunni og gefst fólki kostur á að eiga sameiginlega stund eftir guðsþjónustu. Kaffinu verður komið fyrir í forkirkju Útskálakirkju og í anddyri safnaðarheimilisins í Sandgerði.
Safnaðarþjónar er ný þjónusta innan kirkjunnar í Útskálaprestakalli. Þeirra hlutverk er að bjóða fólk velkomið til kirkju, afhenda sálmaskrár og sálmabækur og sinna öðrum þeim þjónustuþáttum sem nauðsynlegir eru.
Með þessum breytingum er vonast til að guðsþjónustan verði persónulegri og einnig að sem flestir taki virkan þátt í hinu kirkjulega starfi.

Kirkjuskólinn
Á haust-, vetrar- og vormánuðum er kirkjuskólinn, barnastarf kirkjunnar, starfræktur annan hvern laugardag sömu helgar og guðsþjónusturnar eru í prestakallinu. Kirkjuskólinn er kl. 11 í safnaðarheimilinu í Sandgerði og kl. 14 í safnaðarheimilinu Sæborgu í Garði.
Kirkjuskólinn er ekki síður ætlaður foreldrum sem hafa verið duglegir að fylgja börnum sínum á þessar líflegu stundir. Eftir stundirnar er boðið er upp á kaffi fyrir fullorðna en ávaxtasafa og meðlæti fyrir börnin.
Í vetur verða nýjar og skemmtilegar breytingar gerðar á barnastarfinu. Meira verður um óvænta gesti, uppákomur og leiki.

NTT- starfið
er skammstöfun fyrir níu til tólf ára starf sem hefur verið á þriðjudögum kl. 17 í hverri viku í safnaðarheimilinu Sæborgu og á sama tíma í safnaðarheimilinu í Sandgerði. Þetta eru samveru- og ánægjustundir ætlaðar öllum í prestakallinu sem telja sig of gamla fyrir kirkjuskólann og einnig þeim sem mæta í hann og eru orðnir níu ára. Krakkarnir fá að syngja, leika og njóta sín ásamt því að fá eitthvað til að væta kverkar og þagga í görnum.

Æskulýðsstarf
Árið 1998 var stofnað æskulýðsstarf innan kirkjunnar í prestakallinu sem bar heitið ´”Útnes”. Breytingar verða á æskulýðsstarfinu í vetur. Farin verður sú leið að vera í náinni samvinnu við æskulýðsnefndir Sandgerðisbæjar og Gerðahrepps enda brýnt að allir aðilar taki höndum saman og vinni að uppbyggilegu æskulýðsstarfi fyrir unga fólkið. Stofnað verður æskulýðsfélag í Sandgerði og verður stofnfundur þess 27. september n.k. Vonast er til að hægt verði að gera slíkt hið sama í Garðinum en þessar hugmyndir á enn eftir að viðra við æskulýðsnefnd Gerðahrepps.

Taizé-helgisamverur í hverri viku.
Kertaljós, helgi, söngur, fyrirbænir og kaffi.
Í vetur verða svonefndar Taizé-helgistundir haldnar á miðvikudagskvöldum kl 20:30 og verða þær til skiptis í safnaðarheimilinu í Sandgerði og Útskálakirkju. Þessar helgistundir eru að ýmsu leiti frábrugðnar hefðbundnum guðsþjónustum og messum. Þær byggjast fyrst og fremst á Taize-tónlist sem kennd er og samin af nokkrum bræðrum í Taizebræðrareglunni, sem kennir sig við lítið þorp í norður Frakklandi. Söngur þessi er í senn heillandi og grípandi og á það jafnt við um lag sem ljóð.
Lesið er úr Davíðssálmum og lesturinn brotinn upp með söng. Síðan er guðspjallið lesið og fluttar ljósbænir þ.e. kveikt á kerti við hverja bæn. Fólki er velkomið að bera fram fyrirbænir sem fluttar eru í helgistundinni með öðrum ljósbænum. Raflýsing er höfð í lágmarki en ljós frá kertum látin lýsa. Hver helgistund tekur 30 mínútur. Þessar stundir hefjast í byrjun októbermánaðar.

Ný vefsíða.
Í haust verður tekin í notkun ný vefsíða Útskálaprestakalls. Væntanleg vefslóð verður www.utskalar.is þar verður hægt að fá upplýsingar um safnaðarstarfið svo og annað uppbyggilegt efni.
Einnig eru guðsþjónustur auglýstar reglulega í staðarblöðum. Þá verður öll vetrardagskráin kynnt í fréttabréfi kirkjunnar sem kemur út í næstu viku.

Fleira væri hægt að telja til, en þetta er meðal þess helsta sem verður á dagskrá í vetur í Útskálaprestakalli.

Björn Sveinn Björnsson
sóknarprestur
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024