Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kínverskir vísindamenn fá netnámskeið frá Sandgerði
Með kærustunni á lestarstöð í Tævan 25 janúar 2020, 2 dögum eftir að lýst var yfir neyðarástandi í Kína út af Kórónavírusinum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 7. júní 2020 kl. 07:15

Kínverskir vísindamenn fá netnámskeið frá Sandgerði

Sandgerðingurinn Halldór Berg Harðarson hefur unnið og búið í Beijing í yfir átta ár. Fór á síðasta ári til meira en 20 borga í Kína til að halda fundi og viðburði.

Sandgerðingurinn Halldór Berg Harðarson hefur haldið netnámskeið fyrir hundruð kínverskra vísindamanna frá stofu foreldra hans í Sandgerði og unnið að þróun sýndarveruleikaviðburða sem gerir meðlimum þeirra kleift að mynda ný tengsl þótt þeir séu langt frá hverjum öðrum.

Víkurfréttir náðu rafrænu sambandi við Halldór sem er með blóð Sandgerðinga og Keflvíkinga í æðum en hann hefur unnið og búið í Beijing í meira en átta ár og verið fram og til baka milli Evrópu og Kína síðan 2006. Við spurðum hann út í þetta sérstaka líf og störf hans undanfarin ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tæknisamskipti Kína og Evrópu

„Undanfarin fimm ár hef ég verið að stjórna verkefni á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem heiti EURAXESS og hefur að gera með vísinda-, nýsköpunar- og tæknisamskipti á milli Kína og evrópska vísindasvæðisins. Ég er yfirlandsfulltrúi EURAXESS í Kína og við erum í innsta koppi þegar kemur að vísindasamstarfi á milli þessara tveggja vísindavelda – mál sem eru auðvitað bæði hápólitísk og mjög mikilvæg, enda reiðir allur heimurinn sig á því að heimsveldin geti unnið saman að stærstu vísindarannsóknum samtímans svo við getum notið þeirra framfara og aukinna lífsgæða sem við vonumst eftir að framtíðin beri í skauti sér.

Þetta er ekki síst skýrt þessa dagana þegar allir keppast að því að finna lausn á þessari kórónaveiru. Evrópusambandið var fljótt að setja tugi milljarða í vísindarannsóknir og byrjuðu strax í janúar. Við fórum í það að kynna þessa styrki fyrir kínverskum vísindateymum í okkar tengslaneti og á endanum fór svo að fjögur stór vísindaverkefni höfðu kínversk teymi innanborðs. Eitt þeirra hefur nú þegar borið árangur, 30 mínútna COVID-skimun sem hefur fengið CE-merkingu og er tilbúin á markað. Kannski munum við sjá það á Keflavíkurflugvelli einhvern tímann?“

Styrkja tengslanetið

Halldór segir að vinnan snúist ekki síst um það að búa til, stækka og styrkja tengslanet vísindamanna í Evrópu og Kína og í dag eru yfir 5.000 vísindamenn í EURAXESS Kínanetinu.

– En hvernig tengir þú þig við vísindamennina?

„Til þess að geta gert þetta þá ferðast ég mikið um Kína og heimsæki flesta háskóla og vísindastofnanir í heimsálfunni þverri og endilangri. Í fyrra fór ég til dæmis til meira en 22 borga í Kína til að halda fundi og viðburði með vísindamönnum.

Þessi endalausu ferðalög hafa skilað mér á ýmsa staði og ég hef heimsótt alveg mergjaðar vísindamiðstöðvar; fólk sem er að þróa kjarnasamruna, vinna með vélmenni, leysa matarvanda mannkynsins og fleira. Þannig hef ég til dæmis margoft heimsótt Wuhan, borgina þar sem heimsfaraldurinn byrjaði, og var þar meðal annars í fyrra. Það er alveg dásamleg borg með ótrúlegu gæðafólki, fallegum, gömlum hverfum og mikilli uppbyggingu – það er alveg ömurlegt að fylgjast með þeim hremmingum sem þau hafa þurft að ganga í gegnum á þessu ári. Ég hef líka heimsótt hina frægu vírusarannsóknarmiðstöð í Wuhan sem Trump hefur borið þungum sökum og talað við vísindamennina sem þar starfa. Það eru ekki margir sem vita að rannsóknarstöðin var byggð sem samstarfsverkefni Frakklands og Kína eftir SARS-faraldurinn 2002, einmitt til að Kínverjar ættu réttu tæknina ef kæmi til annars faraldar.“

– Hvernig hefur þú upplifað veirutímann?

„Þetta vírusástand er búið að vera að hrella mig lengur en flesta. Þann 19. janúar fór ég í stutt ferðalag til Tævan til að eyða kínversku áramótunum með tengdafjölskyldunni. Konan mín hafði sagt mér alveg viku áður að það væru alls konar fréttir og póstar á kínverska internetinu um veirufaraldur í Wuhan svo ég var með grímu í flugvélinni en hugsaði ekki mikið meira um það að öðru leyti. Um viku síðar hins vegar er ljóst að það er allt farið í bál og brand á meginlandinu, flugmiðanum mínum var aflýst og ég endaði á því að ílengjast í Tævan í meira en mánuð. Þetta kom alveg flatt upp á mig, ég hafði búist við því að vera aðeins fáeina daga í burtu og heima í Beijing var matur í ískápnum og óhreint tau sem fær víst enn að bíða.

Ég var samt ekki einn í þessari stöðu, það voru fjölmargir útlendingar sem vinna í Kína sem fóru í ferðalag í nýársfríinu en ílengdust og gátu ekki snúið heim. Blessunarlega voru tævönsk stjórnvöld í stórfínni aðstöðu til að loka landinu og þótt það hafi gripið um sig svolítil hræðsla snemma í ferlinu var öryggið sett á oddinn og í dag eru færri sem hafa smitast í Tævan en á Íslandi þrátt fyrir að þar búi 60 sinnum fleiri.

Í lok febrúar fór svo að sjá fyrir endann á þessu ástandi í Kína en þar sem ég þurfti að fara á einn af mínum reglulegum fundum í Brussel um miðja mars taldi ég best að halda mig fyrir utan hááhættusvæðið og bíða með að snúa til baka þangað til að ég hefði a.m.k. lokið þeirri ferð.

Það sem ég hafði ekki reiknað með var að um miðjan mars var ástandið í Evrópu orðið alveg hræðilegt og kínversk stjórnvöld lokuðu landmærunum fyrir öllum útlendingum, jafnvel fólki eins og mér sem hefur verið með landvistar- og dvalarleyfi þar í meira en fimm ár samfleytt. Síðan þá hef ég verið á Íslandi að beðið eftir því að Kína opni aftur. Það eru þó ákveðnar blikur á lofti að það gæti orðið bráðlega.“

Kærkominn tími með fjölskyldunni við sjóinn

Haraldur segir að það hafi verið mjög kærkomið að fá að vera með fjölskyldunni í húsi þeirra við sjóinn í Sandgerði. „Það eru orðin mörg ár síðan við höfum getað verið saman svona lengi. Ég hef farið í ófáa göngutúra með mömmu og pabba og við eldum saman mat. Ég hef líkað geta fengið smá hvíld frá öllu þessu flandri, ég hef verið að fljúga að meðaltali einu sinni í viku í yfir fimm ár, svo að geta komið sér í rútínu og unnið í rólegheitnunm heima er líka hið besta mál.“

– En þetta ástand og þín staða hefur auðvitað kallað á breytingar, er það ekki?

„Á meðan ástandinu stendur höfum við breytt stefnumörkun EURAXESS fyrir 2020 og ég stjórna teyminu mínu héðan frá við að færa alla áhersluna á viðburði á netinu. Þetta hefur virkað mjög vel og maímánuður var með mestan vöxt verkefnisins frá upphafi, bæði í fjölda nýrra meðlima og þegar kemur að þátttöku þeirra sem fyrir eru.“

Halldór Berg Harðarson

– Árgangur:

1986.

– Fjölskylduhagir:

Í sambúð.

– Búseta:

Alla jöfnu í Beijing, Kína.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Ég er sonur Harðar Kidda Lár frá Sandgerði og Vilborgu Einarsdóttur frá Keflavík. Ég ólst upp í Sandgerði og gekk í grunnskólann þar.

– Starf:

Yfirlandsfulltrúi EURAXESS í Kína, verkefnis á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ég er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og háskólagráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði.

– Hvað er í deiglunni?

Annar pakki Evrópusambandins til að styrkja rannsóknir tengdum COVID var að koma út og er opinn fyrir alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og við erum að reyna sjá til þess að kínversk vísindateymi í sömu rannsóknum séu meðvituð um það.

– Grunnskólaárin:

Ég var fyrirmyndarnemandi, mér tókst til dæmis að vinna stærðfræðikeppnina á Suðurnesjum þegar ég var í 9. bekk og ég útskrifaðist sem dúx í flestum fögum frá Grunnskóla Sandgerðis 2002.

– Framhaldsskólaárin:

Ég tók rútuna á hverjum degi svo ég gæti stundað nám í Menntaskólanum í Reykjavík og kynntist þar fólki og hugmyndum sem hafa hjálpað mér alveg síðan þá.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Þegar ég var átta ára var ég ákveðinn í því að verða uppfinningamaður. Í framhaldsskóla fór ég á mjög stranga raunvísindabraut og var ákveðinn í því að verða verkfræðingur. Í MR áttaði ég mig hins vegar á því að þótt ég væri mjög góður í hörðu vísindunum þá var ég á sama tíma betri en hinir raunvísindakrakkarnir þegar kom að félagsvísindum og tungumálum. Ég söðlaði því um völl og í dag vinn ég með uppfinningamönnum, hjálpa þeim að tengjast og finna verkefni.

– Fyrsti bílinn:

Það var notuð Toyota Carina sem mér tókst að keyra sem nemur langleiðinni til tunglsins áður en ég varð að farga henni. Í dag nota ég mest Uber eða almenningssamgöngur þegar ég ferðast um Beijing og á engan bíl. Ég á hins vegar fínasta rafmagnsmótórhjól sem ég gríp í ef ég vil keyra sjálfur.

– Hvernig slakarðu á?

Á undanförnum árum þykir mér besta leiðin til að slaka á að setja gott hlaðvarp á og fara í ræktina.

– Uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst 17 ára:

Bítlarnir, ég hlustaði aftur og aftur á allar plöturnar þeirra og vissi allt um þá. Bítlaæðið hefur aðeins sjatnað með árunum og í dag hlusta ég mest á raftónlist og alls konar djass.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Ég hef æft gítar án stopps síðan ég var átta ára og hef tekið það hljóðfæri með mér um allan heim. Ég spila bæði klassíska, spænska gítartónlist og svo strömma ég alls konar popptónlist, oft tengdan í looper til að hlaða aðeins ofan á það sem ég er að gera.

– Sjónvarp eða lestur bóka:

Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur en lítið fyrir það að velja mér uppáhalds- eitt eða neitt. Ég get samt mælt með bókum sem ég held að eigi erindi við marga, til dæmis finnst mér bókin Sapiens eftir Yuval Harari alveg frábær. Ég held að hún sé kominn út á íslensku í dag enda toppaði hún vinsældarlistana í langan tíma.

– Hvernig er eggið best?

Hrært og silkimjúkt, með flögusalti á súrdeigsbrauðssneið, eða sætt teegg, linsoðið í japönsku ramen.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Þegar ég var mjög lítill lenti ég í mjög alvarlegu bílslysi í blindbyl á Reykjanesbrautinni. Ég fór í stóra aðgerð og er með stórt ör eftir kviðnum enn þann dag í dag. Ég man eftir hinu og þessu frá endurhæfingunni og stundum finnst mér eins og ég muni eftir deginum sem slysið varð – þótt það sé jafn líklegt að það séu falskar minningar byggðar á seinni tíma samtölum sem aðeins eldra barn.

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Ætli dvölin á Íslandi þessa daganna muni ekki teljast sem „sumarfríið“ mitt. Um leið og tækifæri gefst mun ég snúa aftur til Beijing. Ég hef á tilfinningunni að það eigi önnur veirubylgja eftir að ganga yfir aftur í haust og ég vil vera Kínamegin á þeim tímapunkti svo ég geti sinnt almennilega starfinu mínu.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Ég hef tekið nokkra erlenda vini til að skoða sig um á Reykjanesi þegar ég hef haft tök á. Ég fer með þeim út á Garðskaga og svo Ósabotnaleið suður Reykjanesið. Það er margt að sjá á leiðinni. Við förum í gegnum Sandgerði og Hvalsnes sem mér finnst vera eitt fallegast kirkjustæði á landinu. Það er auðvelt að ganga út í Básenda og Stafnes, og halda svo áfram, kíkja við í brúnni á milli heimsálfa, út á Reykjanesvita, Gunnuhver og svo framvegis. Ég ólst upp við eggjaleit svo ef þeir koma á vorin þá fer maður í heiðina og reynir að finna egg og ef maður kemur að hausti þá reyni ég að finna gott berjaland. Mörgum útlendingum finnst einstakt að komast í svo náin tengsl við náttúruna.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

Ég myndi fljúga til Tævan svo ég geti verið með kærustunni aðeins fyrr. Ef allt væri með eðlilegum hætti myndi ég líklega beina flugvélinni eitthvert sem ég hef aldrei komið áður.  Kannski Íran eða Brasilíu. Ég á vini á báðum stöðum sem ég vildi gjarnan heimsækja.

Sjá viðtalið og myndirnar í rafrænum Víkurfréttum.

„Svipmyndir frá sjónvarpsviðtali sem ég fór í hjá ríkissjónvarpi Kína til að tala um Svartholsmyndirnar sem komu út í fyrra. Apríl 2019.“

Skálað meðt borgarstjóra í Zhengzhou, í Henan héraði í Kína. Október 2019.

Halldór horfir til hafsins við Selatanga.