Kiddi í Hjálmum: Langar í egg með lakkrískurli
Guðmundur Kristinn Jónsson, Kiddi í Hjálmum, hefur í vetur eitt mestum tíma í hljóðverinu sínu í Hafnarfirði þar sem hann hefur verið að taka upp allskyns tónlist. Það verður vertíð hjá Kidda um páskana en hann er að spila með hljómsveitum á Akureyri.
- Hvernig á að verja páskunum?
„Pákarnir eru vertíð hjá mér. Á skýrdag náði ég að vera með börnunum mínum og gera eitthvað skemmtilegt með þeim en annars verð ég þessa páskana á Akureyri með Hjálmum og Megasi og Senuþjófunum þar sem við höldum tónleika föstudag, laugardag og sunnudag“.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Hingað til er ég bara búinn að kaupa eitt páskaegg sem er ætlað konunni minni. Ég geri ráð fyrir að hún kaupi allavega jafn stórt egg handa mér. Mig langar í páskaegg með lakkrískurli, ef hún skildi lesa þetta. Svo er spurning með börnin hvort þau séu ekki búin að fá nóg af eggjum nú þegar, það er alltaf erfitt að halda aftur af ömmum og öfum í stórri fjölskyldu“.
- Á að ferðast innanlands eða utan?
„Í sumar verða hljómsveitirnar, Hjálmar, Baggalútur og Senuþjófarnir ásamt Megasi töluvert á ferð og flugi bæði innanlands og erlendis. Í júlí er svo planið að taka gott frí með fjölskyldunni.
Við fjölskyldan höfum lagt það í vana okkar að ferðast innanlands á sumrin ásamt ömmum og öfum þar sem við eltum besta veðrið og látum það soldið ráðast hvert við förum. Ísland er best á sumrin og börnin elska svona sígauna flakk“.
- Hvernig sumar fáum við?
„Ég spá því að sumarið í ár verði frábært eins og undanfarin sumur“.
- Hvernig hefur veturinn verið hjá þér?
„Í vetur hef ég eytt mestum tíma mínum í hljóðverinu mínu í Hafnarfirði, þar sem ég hef verið að taka upp allskyns tónlist þar á meðal þrjár plötur með Megasi, Ballið á Bessastöðum og nýtt efni með Hjálmum og Baggalúti. Í febrúar brá ég mér svo með fjölskyldunni á skíði á Ítalíu og hjálmar spiluðu á By:larm tónlistarhátíðinni í Osló“.