Kiddi Hjálmur á Kúbunni
Það hefur verið mikið að gera hjá Guðmundi Kristni Jónssyni, betur þekktum sem Kidda í Hjálmum, að undanförnu. Kiddi er orðinn einn afkastamesti upptökustjóri landsins auk þess að spila með Hjálmum, Baggalúti o.fl. sveitum. Hann kemur einnig að sjónvarpsþættinum Hljómskálinn sem sýndur hefur verið á RÚV við góðan orðstír. Kiddi var fyrir skömmu á Kúbu þar sem hann tók upp nýja plötu með Sigurði Guðmundssyni og Memphismafíunni.
„Við Siggi fórum til Kúbu til að taka upp plötu með Memphismafíunni og þetta var mjög eftirminnileg ferð. Við höfum verið að fara á eyjur í nágrenninu, t.d. tókum við í Hjálmum upp plötu á Jamaíka. Við urðum eiginlega að prófa að taka upp plötu á Kúbu. Núna erum við kannski búnir að loka hringnum. Ég er að hljóðblanda plötuna um þessar mundir og hún kemur út fyrir jól. Við fengum marga hæfileikaríka tónlistarmenn frá Kúbu til að spila inn á plötuna og það gætir áhrifa frá Kúbu. Þetta lofar góðu,“ segir Kiddi í samtali við Víkurfréttir.
Uppgötvaði nýjustu tónlistarstjörnu landsins
Kiddi hefur að undanförnu unnið mjög náið með tónlistarmanninum unga, Ásgeiri Trausta, sem hefur slegið í gegn hér á landi á undanförnum mánuðum. Ásgeir Trausti gaf nýverið út plötuna Dýrð í Dauðaþögn sem hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og slegið í gegn hjá íslenskum tónlistarunnendum. Kiddi, sem stjórnaði upptökum á plötunni, fékk demó frá Ásgeiri, sem er hálfbróðir Þorsteins Einarssonar, söngvara í Hjálmum og heillaðist um leið.
„Ég er ekki vanur að hlusta mikið á demó en úr því að þetta var bróðir hans Steina, sem er æskuvinur minn, þá gat ég ekki hafnað honum. Ég hlustaði á demóið og fann strax að það var mikið spunnið í þennan dreng. Við drifum okkur svo í kjölfarið í upptökur. Platan hefur orðið mjög vinsæl en það er fyrst og fremst vegna þess hve góð hún er. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt ferli og gaman að taka þátt í þessu ævintýri með Ásgeiri. Þetta minnir mann svolítið á það þegar við í Hjálmum vorum að slá í gegn þó ég sjái þetta kannski örlítið með öðrum augum núna,“ segir Kiddi.
Hefur mikla trú á Of Monsters and Men
Hljómsveitin Of Monsters and Men, sem að hluta er skipuð þeim Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur og Brynjari Leifssyni frá Suðurnesjum, þekkja flestir Íslendingar og hefur sveitin orðið fræg um nánast allan heim á örskömmum tíma. Víkurfréttir fékk Kidda til að meta uppgang sveitarinnar og hvort Of Monsters and Men sé orðin heimsfræg?
„Það er ekki spurning að sveitin er orðin heimsfræg. Það er alveg sama á hvaða tónlistarhátíð ég fer – þau eru þar að spila. Lögin þeirra eru svo spiluð í útvarpi eða auglýsingum um allan heim. Þessi sveit er að verða fræg á allt annan hátt en t.d. Björk og Sigur Rós. Þau njóta mun meiri vinsælda meðal almennra tónlistarunnenda og slógu í gegn hjá háskólasenunni. Það sem er athyglisvert við vinsældir þessarar sveitar er að hún verður fyrst vinsæl í Bandaríkjunum og slær svo einnig í gegn í Evrópu. Það er ekki sjálfgefið. Fyrsta árið á tónleikaferðalagi er alltaf mjög erfitt og reynir á. Þau eru hins vegar með frábæran umboðsmann og það er hugsað vel um þau þannig að það auðveldar þetta aðeins. Flestar sveitir enda í mínus fjárhagslega við að fara á fyrsta tónleikaferðalagið og vita yfirleitt ekki hvaðan næsta máltíð kemur en ég er nokkuð viss um að þetta er aðeins þægilegra hjá þeim. Ég hef mikla trú á þessari hljómsveit og spái henni miklum frama.“