Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Keyptu alpahúfu í stíl við garnhnykil
    Systurnar Kristín og Hildur í Kóda. VF-myndir/Olga.
  • Keyptu alpahúfu í stíl við garnhnykil
Sunnudagur 30. nóvember 2014 kl. 11:00

Keyptu alpahúfu í stíl við garnhnykil

Kóda-systur leggja sig fram við að veita bestu þjónustuna og gott vöruúrval.

Systurnar Kristín og Hildur Kristjánsdætur hafa staðið vaktina í hinni rúmlega þrítugu tískuvöruversluninni Kóda, sem hefur verið leiðandi á Suðurnesjum í sölu á fatnaði, skóm og ýmsum fylgihlutum. Þær segja að flestir íbúar í Reykjanesbæ geri sér líklega ekki grein fyrir því hversu margar verslanir og þjónustufyrirtæki eru á svæðinu og hvað þau standa fyrir. Þær eru afar stoltar af bænum sínum og þakklátar tryggum viðskiptavinum.
 
 
„Við erum alltaf að fá kúnna sem eru búnir að verja heilum degi í Reykjavík sem þeir eru einhverjar mínútur að versla hér. Þetta er ekki flókið og um að gera að gefa okkur séns og sjá hvað er til á svæðinu hér,“ segir Kristín. Systurnar telja að auðvitað hljóti íbúar að vilja hafa verslanir í miðbæ Reykjanesbæjar. „Við verðum að standa saman sem samfélag og halda úti því sem er í boði. Ég held að flest okkar geri sér ekki grein fyrir því hversu margar verslanir og þjónustufyrirtæki eru á svæðinu og hvað þau standa fyrir,“ segir Kristín.
 
 
Aldeilis komnar í jólagírinn
Hildur og Kristín segjast vera mjög stoltar af Reykjanesbæ og hér sé gott að búa. „Við erum sterkari eftir því sem fjölbreytnin er meiri á svæðinu. Við eigum einstaklega góða og trygga viðskiptavini, annars værum við ekki búnar að vera hér í rúm 30 ár. Við reynum að þjóna öllum konum á öllum aldri, leggja okkur fram við það að eiga allar stærðir,“ segir Hildur og bætir við að þær systur séu aldeilis komnar í jólagírinn. „Við förum alltaf í bjartsýnis- og stresskast á þessum tíma,“ segir hún og hlær dátt. 
 
 
„Nú ætla ég ekki að kaupa svart“
Spurðar um hvað sé vinsælast og nýjast í versluninni segja þær slár, ponsjó og alls kyns kjóla koma sterk inn. Einnig gyllt, silfrað og pallíettur. „Konur koma inn og segja: Jæja nú ætla ég ekki að kaupa mér svart. Svo labba þær út með allt svart,“ segir Kristín hlæjandi og bætir við að Íslendingar séu bara svo íhaldssamir og hagkvæmir. Þá leggi þær mikla áherslu á að eiga alltaf nóg af buxum í öllum stærðum og gerðum. „Hér finna konur allt sem þær þurfa í fatnaði; spari- og hversdagsfatnað, skó, skart og aukahluti.“ 
 
 
Uppáhalds bolur í tíu ár
Í verslunina Kóda koma konur alveg upp í áttrætt að máta í klefa. „Sumar kíkja líka bara hérna við til að spjalla. Ein kom með prjónahnykil og sagði: „Geturðu nokkuð keypt fyrir mig alpahúfu í svona lit? Rosalega krúttlegt. Við fórum út í innkaupaferð til að finna húfu í þeim lit og komum heim með fjórar. Konan keypti tvær og nýjan bol. Hún sagðist hafa keypt hér bol sem var hennar uppáhalds í tíu ár og varð að fá annan svipaðan. Þetta gengur allt út á þetta persónulega og góða; tengslin við íbúana,“ segja systurnar bjartsýnu. 
 
 
 
VF/Olga Björt
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024