Keypti hús prestsins og lögreglustjórans
Nýi sýslumaðurinn á Suðurnesjum skildi fjölskylduna tímabundið eftir á Siglufirði.
Ásdís Ármannsdóttir tók við embætti Sýslumannsins á Suðurnesjum á síðasta ári og flutti til Reykjanesbæjar um áramótin. Hún festi kaup á húsi Sr. Skúla S. Ólafssonar og Sigríðar Bjarkar, fyrrum lögreglustjóra. Henni líkar vel í starfinu, sem hún segir mikið til ganga út á að aðstoða fólk í erfiðum aðstæðum. Hún segir það afar gefandi.
„Það er ekki góður leigumarkaður hérna og okkur leist best á hús Skúla og Sigríðar Bjarkar. Ég flutti inn rétt eftir áramótin en fjölskyldan er enn á Siglufirði, þar sem ég var settur sýslumaður á Akureyri í eitt ár og keyrði á milli. Sonur minn að klára 10. bekk og dóttirin í 9. bekk. Við vildum ekki skipta um skóla svona á miðju ári,“ segir Ásdís, sem þekkti Suðurnesin nánast ekkert áður en hún flutti hingað. Hún kemur upphaflega frá Stöðvarfirði og starfaði sem sýslumaður á Siglufirði í um átta ár og þekkti svo sem ekkert þar til heldur þegar hún var nýkomin þangað. „Mér finnst ágætt líka að vera nær höfuðborgarsvæðinu hérna, maður þekkir alltaf einhvern þar. Það er líka stutt í flug ef mann langar til útlanda.“
Of neikvæð umræða um svæðið
Ásdísi finnst víða of neikvæð umræða vera um Suðurnesin. „Ef maður þekkti ekkert til gæti maður hafa haldið að hér væri ekkert nema atvinnuleysi, nauðungarsölur, heimilisofbeldi og neysla. Það er þetta sem maður hefur mest heyrt af. Það eru reyndar helst aðrir sem segja við mig: Hva ertu að fara þangað að vinna? En komandi frá Siglufirði þá eru þetta svo mikil umskipti því umfjöllunin þar er svo jákvæð víða í fjölmiðlum, enda mikil uppbygging. Það er nú alls staðar gott fólk, sem betur fer,“ segir Ásdís og bæti við að hún sé ekki mikið farin að kynnast fólkinu hér ennþá, aðallega samstarfsfólkinu. „Það hefur tekið mér mjög vel. Svo dreif ég mig í leikfimi hérna í Lífsstíl. Það er nálægt og hentugir tímar. En helgarnar eru erfiðastar þegar maður er ekki með fjölskylduna.“
Er ekki valdsmannstýpan
Sýslumannsembættunum á landsvísu var fækkað úr 24 í 9 í fyrra. Þeim var breytt þannig að sýslumenn voru leystir undan verkefnum lögreglustjóra. „Hér á Suðurnesjum var löngu búið að aðskilja þau embætti og því í raun engar nýjar breytingar. Þetta embætti var ekki undir í þessum breytingum en þegar Þórólfur fór á höfuðborgarsvæðið þá losnaði þessi staða. Ég þurfti bara að setjast í stólinn og byrja að vinna,“ segir Ásdís og brosir. Spurð um áherslubreytingar segir hún slíkar ekki vera á teikniborðinu og fyrstu verk hafi verið að hlusta á starfsfólkið; heyra þeirra upplifun. Ég vil sjá hvernig hlutirnir eru áður en ég reyni að breyta einhverju. Ég er ekki á því að breyta breytinganna vegna. Mér sýnist þetta allt virka vel.“ Þá finnst henni mikilvægt að hlúa vel að starfsfólkinu. „Ánægt starfsfólk veitir betri þjónustu. Að mínu mati þarf týpa sýslumanns að vera hjálpsöm, almennileg og mannleg. Svo eru aðrir valdmannslegri, en ég vil ekki vera þannig. Það gustar bara meira af sumum en öðrum, það er bara þannig. Ég er bara ein af starfsfólkinu.“
Líður best í þjónustuhluverkinu
Ásdís hefur meira og minna starfað í sýslumannsgeiranum frá því að hún útskrifaðist sem lögfræðingur. Um tíma starfaði hún þó sem lögmaður þar sem rukkað var fyrir hvert símtal. „Það átti ekki við mig því ég er vön að vera í þjónustuhlutverki og sinna þeim sem koma til mín. Ég er ánægð í þessu og það er mest gefandi að geta aðstoðað og fólk fari ánægðara frá mér en þegar það kom óöruggt inn inn, t.d. þegar verið er að skipta dánarbúum. Einnig er alltaf gaman að gifta. Erfðast er þó að eiga við þegar einstaklingar eiga erfitt eins og við nauðungarsölur, skilnaði og dauðsföll ungs fólks og ganga þarf frá pappírum. Maður sér fólk í ýmsum erfiðum stöðum að sinna pappírsvinnu. Það er gott að geta hjálpað og við gerum okkar besta hér.“
Ásdís segir heilmikinn mun að sjá sólina hér allt árið því hún skein ekki á Siglufjörð fyrr en 28. janúar. „Það er ekki margt sem skyggir á hér. Hér er minni snjór en lognið hreyfist meira. Þetta hefur allt sína kosti og galla. Ég hef heyrt að hér séu mjög góðir skólar. Það þarf að leggja meiri áherslu á það góða - enda lítur úr fyrir að mesta niðursveiflan sé að baki og bjart framundan,“ segir Ásdís að endingu.