Kennir jóga á vinnustöðum

Heiðbrá Björnsdóttir jógakennari í Sporthúsinu hefur undanfarin misseri boðið upp á jógatíma á vinnustöðum á Suðurnesjum á vegum fyrirtækisins Jakkafatajóga. Hún kemur á vinnustaði í 20 til 30 mínútur og leiðir fólk í gegnum jóga á vinnutíma. „Það er búið að ganga alveg ótrúlega vel, miklu betur en mig óraði fyrir og sum fyrirtækjanna hafa verið með frá upphafi,“ segir hún. Aðrir vinnustaðir bjóða starfsfólki sínu upp á jóga í einn til þrjá mánuði, taka svo stundum hlé í nokkrar vikur og byrja aftur. Í lok hvers jógatíma er alltaf hugleiðsla og slökun.

Heiðbrá sníður æfingarnar að aðstæðum á hverjum vinnustað. Æfingarnar eru ýmist gerðar sitjandi á stól eða standandi. Hún segir mikinn ávinning fyrir vinnustaði af því að bjóða starfsfólki sínu upp á jóga á vinnutíma. „Jóga eykur orkuna töluvert og fólk talar um að finna mikinn mun á sér í vinnunni þegar það stundar þar jóga. Það áorkar meiru og finnur fyrir vellíðan.“

Sjálf byrjaði Heiðbrá að stunda jóga fyrir nokkrum árum síðan í líkamsræktarstöð. Fyrst fór hún í tvo til þrjá tíma á mánuði. „Ég fór fljótt að finna hvað jóga gerði mér gott og að þetta var eitthvað sem ég vildi læra og kenna öðrum. Ég fann hjá mér sterka ástríðu til að koma jóga til sem flestra. Mér finnst rosalega gott að gefa öðrum jóga. Það er eiginlega alveg yndisleg tilfinning. Það má segja að ég sé orðin heltekin af jóga í dag. Mér finnst einfaldlega allt betra eftir jóga.“

Það er ekki aðeins jóga sem á huga Heiðbrár því hún kennir einnig í tímum í Superform í Sporthúsinu á Ásbrú. Hún hefur sótt fjölda námskeiða sem tengjast líkamsrækt í gegnum tíðina. Sumir iðkendur eru bæði hjá Heiðbrá í jóga og Superformi. „Ég er stundum kölluð ofvirki jógakennarinn því fólki finnst ég vera víða að kenna en það er nú bara misskilningur því ég er búin að finna hinn gullna meðalveg.“

dagnyhulda@vf.is