Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kenndi jóga í unglingafangelsi
Ragna Árný ásamt fjölskyldu sinni.
Sunnudagur 3. mars 2019 kl. 07:00

Kenndi jóga í unglingafangelsi

Ragna Árný Lárusdóttir er af Sólimann-ættinni í Keflavík en er núna búsett í Kaliforníu. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni við San Francisco-flóann í litlum bæ sem heitir Piedmont en þar búa um 12.500 íbúar. Bærinn er inni í Oakland sem er 600.000 manna borg. Í heildina búa hátt í átta milljónir íbúa við San Francisco-flóa.

Fjölskylduhagir?
„Við erum fjögur, maðurinn minn heitir Snorri Gylfason, tölvunarfræðingur og er frá Akureyri, Hörður Atóm, fjórtán ára og er í 9. bekk og Sunneva Lukka, átta ára í 3. bekk. Og ekki má gleyma kettlingunum sem við ættleiddum, systrunum Taylor Swift og Nótu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig er bæjarlífið þarna?
„Piedmont er lítill bær og félagslífið snýst mest í kringum skólana. Það er bara ein verslun og ein bensínstöð auk nokkurra banka. Fólk er mjög vingjarnlegt og allir heilsa öllum á göngutúr. Við sækjum alla þjónustu í Oakland eða Berkley en þangað erum við tíu mínútur að keyra. Það er mjög skemmtileg stemning núna í Oakland. Fólk er mjög stolt af heimaliðinu í körfubolta, Golden State Warriors, og Oakland As í hafnabolta. Jafnframt er mikið um að vera í listalífinu og matarmenningu. Við förum oft á listasafnið á föstudögum en þá spilar latínóhljómsveit og yfir tíu matartrukkar bjóða kræsingar auk þess sem hægt er að heimsækja safnið ókeypis. Svo er First Friday en það er eins og á menningarnótt nema þetta er haldið fyrsta föstudag í
hverjum mánuði. San Francisco-borg er bara í tuttugu mínútna fjarlægð frá okkur en það er svo oft traffík á brúnni að maður nennir ekki eins oft þangað nema þegar að það eru gestir að heiman. Þá er farið að sýna þeim Golden Gate-brúnna, ferjubygginguna, Alcatraz og Lombard Street, frægu kræklóttu götuna. Svo förum við annað slagið upp í Napa eða Sonoma í vínsmökkun eða skreppum til Monteray á sædýrasafnið þar eða til Carmel á ströndina. Við erum meðlimir í nokkrum listasöfnum, Oakland-dýragarðinum og hinu skemmtilega Exploratorium sem er hugamyndatæknisafn, við kíkjum á þessa staði reglulega.“ 

Við hvað starfar þú?
„Ég var framleiðslustjóri í kvikmyndum í Lúxemborg áður en ég flutti til Kalíforníu árið 2008. Síðan þá hef ég verið heimavinnandi en hef notað tímann til að taka meistaragráðu í alþjóðaviðskiptafræði. Ég hef jógakennararéttindi og kenndi í unglingafangelsi í San Jose á vegum góðgerðarstofnunar sem heitir The Art of Yoga Project. Auk þess tók ég slatta af kvöldkúrsum í Stanford-háskóla, til dæmis í jákvæðri sálfræði og skriftum, skrifaði handrit og fleira. Núna er ég búin að taka að mér að vera formaður Íslendingafélagsins í Norður-Kaliforníu og er að vinna að hugmyndum um hvernig efla megi félagið hér.“

Hvenær fluttirðu frá Íslandi og hvers vegna?
„Árið 1996 flutti ég til Lúxemborgar. Mamma bjó þar með manninum sínum og ég hafði sótt um störf og fannst það líta vel út. En það tók tíma að komast inn í kvikmyndageirann svo að ég vann í fjárfestingabönkum þangað til ég fékk loksins starf við fagið mitt. Við Snorri byrjuðum saman sumarið 2008 á tuttugu ára stúdentsafmæli frá Menntaskólanum á Akureyri. Við vorum góðir vinir og ég hafði lofað honum að ef við yrðum bæði á lausu á tuttugu ára stúdentsafmælinu myndi ég giftast honum. Snorri flutti líka úr landi árið 1996 og við höfðum bæði hellt okkur í vinnu en ákváðum að skella okkur norður með opnum huga. Ég kom fyrst hingað til Kaliforníu með Hörð Atóm í prufukeyrslu í enda ársins 2008 og var með annan fótinn hér þar til að við fluttum hingað endanlega haustið 2009. Snorri er hugbúnaðarhönnuður og er búinn að vera hjá Facebook í fimm ár. Hann er núna að vinna að forritum til að finna falska reikninga og fréttir og stoppa það eins fljótt og hægt er. Ég var tilbúin að taka mér frí frá störfum mínum og reyna eitthvað nýtt.“

Hvernig myndir þú lýsa venjulegum degi hjá þér?
„Ég vakna á undan hinum til að smyrja nesti fyrir krakkana í skólann en fyrst verð ég að hita kaffi og svo gef ég kettlingunum að borða. Þegar Snorri skutlar börnunum í skólann og fer í vinnuna, þá sest ég og tékka á tölvupósti og Facebook og spjalla við vini og vandamenn annars staðar í heiminum. Síðan tek ég aðeins til og fer svo og hreyfi mig eitthvað. Við erum í sundklúbbi og ég syndi eða fer í ræktina reglulega. Fer góðan göngutúr í nágrenninu eða geri jógaæfingar hérna heima. Í leiðinni er ég búin að fara yfir það sem þarf að gera, hvort sem það er kvöldmaturinn, versla, bóka tíma í einhverju eða ferðalög. Svo þegar að ég kem heim um hádegisbilið fæ ég mér að borða og vinn í framangreindum málum. Við búum í húsi frá árinu 1952 sem við keyptum fyrir um þremur árum og ég er búin að vera að vinna í að gera það upp svo að sömuleiðis hefur tíminn farið í að samhæfa fólk, panta það sem þarf og borga reikninga. Klukkan þrjú eru börnin búin í skólanum svo ég fer og næ í þau. Síðan förum við annað hvort í sundklúbbinn á æfingar eða heim ef það eru aukatímar eða trommukennsla. Næst tekur við heimalærdómur og síðan fer ég að elda. Ég er mikil matmanneskja, elda oftast og er með endalausar græjur, þrjá ofna, sex gashellur, Instant Pot og Air Fryer en stundum læt ég nægja frosnar pítsur. Þær eru nú samt lífrænt ræktaðar, glútenlausar með blómkálsbotni og ég skelli smá aukadóti á þær. Eftir mat, spilum við stundum. Núna erum við að rembast við Scrabble á ensku en oftar en ekki horfum við á eitthvað fjölskylduvænt saman áður en Sunneva Lukka fer í rúmið klukkan hálf níu með pabba að lesa. Þá horfum við Hörður Atóm á eitthvað minna barnvænt. Rick and Morty er í uppáhaldi núna. Oftast erum við farin í bólið fyrir klukkan tíu.“

Hver er hápunktur dagsins?
„Það er misjafnt. Ef veðrið er fallegt þá er yndislegt að stinga sér til sunds. Stundum er ennþá betra í heita pottinum eftir á. Sömuleiðis er oft gaman að grilla í sundklúbbnum með vinum í eftirmiðdaginn. Á venjulegum rigningardögum er best að setjast saman við matarborðið og spjalla um atburði dagsins eða einhver plön fyrir næstu helgar eða frí. Við höfum líka stundað það í gegnum tíðina að fara hringinn og segja hvað við erum þakklát fyrir og það kemur yfirleitt annarri umræðu af stað. En ég verð víst að játa það líka að ef dagurinn er búinn að vera strembinn og ég búinn að vera keyra mikið þá er gott að geta loksins sest niður með rauðvínsglas og lesa eitthvað skemmtilegt, hvort sem það er kokkabók, tímarit neytendasamtakanna eða húsgagnablöð og bæklingar.“

 

Hraðaspurningar:

Hversu lengi ertu í kjörbúðina frá heimili þínu?
„Ég fer oftast í Trader Joe’s sem er svona tíu mínútur frá í keyrslu en Safeway er næst okkur og það tekur fimm mínútur að keyra þangað.“

Hvað færðu þér í staðinn fyrir eina með öllu?
„Ég fæ mér lífrænt ræktaða pulsu án sykurs og aukaefna með glútenlausu brauði, steiktum lauk, remúlaði, lífrænt ræktuðu hungangsinnepi og lífrænt ræktaðri sykurlausri tómatsósu – haha. Eini skyndibitamaturinn sem ég borða er brauðlaus In and Out ostaborgari.“

Hvað kostar mjólkurlítrinn?
„Mjólkin sem ég kaupi er lífrænt ræktuð nýmjólk í u.þ.b. tveggja lítra umbúðum og frá Whole Foods kostar hún 3.49 dollara.“

Hver er skrítnasti maturinn?
„Í San Francisco eru stærstu kínahverfin utan Kína og við förum stundum með vinum okkar á alvöru Dim Sum-staði. Þar hlaupa þjónarnir um með vagna fulla af diskum með allskonar kræsingum og bjóða okkur. Við getum valið og svo er merkt við á blaði hvað við tökum. Vinir okkar sjá oftast um að velja og áhugaverðast eru kjúklingafætur sem líta út eins og hendur og vambir í sojasósu. Ekki bragðvont en smá slepjulegt.“

Hvert ferðu til að gera vel við þig í mat?
„Við Snorri höfum farið á Chez Panisse tvo síðustu Valentínusardaga. Chez Panisse var stofnaður af Alice Waters sem startaði honum beint frá bónda byltingunni í matargerð. Það er fyrst tekið við borðapöntunum með 30 daga fyrirvara og þú þarft að liggja í símanum til að komast að.“

[email protected]