Kennarar hristir saman í Stapa
Árlegir Endurmenntunardagar grunnskólakennara í upphafi skólaárs.
Endurmenntunardagar grunnskólanna í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði hafa staðið yfir í gær og í dag. Víkurfréttir litu við í Stapa, þar sem fyrirlestrar fóru fram, og hittu þar m.a. fyrir Láru Guðmundsdóttur, skólafulltrúa hjá Fræðsluráði Reykjanesbæjar.
Lára segir að Endurmenntunardagarnir séu skipulagðir af Fræðslusviðinu en í ár gátu þátttakendur valið um sextán mismunandi námskeið. „Í upphafi skólaárs eru skipulagðir tveir slíkir endurmenntunardagar fyrir kennarana í þessum sveitarfélögum og er þetta er annað árið í röð sem þetta fyrirkomulag er. Það hefur gengið vel og mælst vel fyrir meðal þátttakenda. Kennarar og stjórnendur koma með hugmyndir að námskeiðum sem henta starfi skólanna hverju sinni,“ segir Lára.
Endurmenntunardögum lýkur með sameiginlegum haustfundi þar sem hlýtt er á fyrirlestra og kynningar og hóparnir hristir saman. Lögð er áhersla á mikilvægi starfs kennarans og markað upphaf að nýju skólaári í grunnskólunum, sem hefst annan föstudag.