Kenna nemendum meira um lífið í heild
Forseti, bæjarstjórn, ungmennaráð og góðir gestir. Páll Orri Pálsson heiti ég og er formaður Ungmennaráðs og einn af tveimur fulltrúum Fjölbrautarskóla Suðurnesja.
Það er gott að búa í Reykjanesbæ og bæði fyrrverandi og núverandi bæjarstjórn hafa svo sannarlega lagt sitt af mörkum. Við höfum þennan frábæra tónlistarskóla sem ég fór sjálfur í nokkur ár og er ég afar þakklátur fyrir að mamma hafi sent mig þangað ungan að aldri. Grunnskólar hér í bæ hafa verið yfirburða bestir í Skólahreysti og staðið sig vel í námi.
Í heildina séð er góð þjónusta hér í bæ en þó að margt sé gott þá er alltaf hægt að bæta sig og í ljósi þess ætla ég að tala aðeins um fræðslu.
Sú fræðsla sem nemendur grunnskóla Reykjanesbæjar og Fjölbrautaskólans fá er mjög góð og jákvæð, en hún er ekki nógu fjölbreytt. Mikil áhersla hefur verið lögð á kynfræðslu sem er auðvitað mjög gott, en þó er umtalað að þau séu alltaf að fræðast um sama hlutinn. Að mínu mati mætti gefa krökkum á þessum aldri meiri fræðslu í heildina séð. Auka fjármálafræðslu, hinsegin fræðslu og einnig fræðslu um hvernig margt virkar, eða þá kenna nemendum meira um lífið í heild sinni.
Í fjármálafræðslu er hægt að fræða nemendur um hvernig skal borga reikninga, hvernig lán virka, hvernig þú færð laun, hvað er lífeyrissjóður, hvernig maður sparar, hvernig skal maður fjárfesta o.s.frv. Til dæmis er samfélagsfræðsla í FS í algjöru lágmarki. En akkúrat þar ætti að vera fræðsla mjög reglulega. Því akkúrat þar eru nemendur eru innan skamms að fara út í lífið, fljúga úr hreiðrinu og byrja á leigumarkaðinum, borga reikninga, leigu, fara í nám erlendis eða á vinnumarkaðinn. Einnig ætti að fræða nemendur meira um samfélagsmál. Gera pólitík og stjórnmál áhugaverðari. Að mínu mati skiptir það miklu máli. Fullt af fólki vill hafa áhrif en hefur ekki áhuga á hvernig pólitíkin eða stjórnmál virka og þess vegna kynna þau sér það ekki. Krakkar á grunn- og framhaldsskóla aldri ættu einnig að vera meðvitaðri um hvað er að gerast í samfélaginu og innan bæjaryfirvalda og þau munu að öllum líkindum ekki ráðast í það verk sjálf. Skólinn og jafnframt heimilin þurfa að hafa áhrif. Að mínu mati ætti það að vera skylda að fræðsla fari fram í skólum Reykjanesbæjar og gera hana fjölbreyttari.
Takk fyrir mig.