Kemur sjálfum sér mest á óvart þegar hann bakar bananabrauð
Hatar lakkrís? Hver gerir það?
Marc McAusland er 31 árs Skoti sem kom hingað í byrjun árs 2016 til að leika fótbolta með Keflavík – hann er ekki enn farinn til baka, búinn að skjóta rótum hér og ætlar að sækja um íslenskt ríkisfang í ár.
„Ég er búinn að kaupa mér hús hér í Reykjanesbæ með Ólöfu, unnustu minni. Saman eigum við sex mánaða gamlan strák sem heitir Kári og svo á ég Sölva, átta ára gamlan stjúpson,“ sagði Marc í netspjalli við Víkurfréttir.
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
Já, ég held að þetta sumar verði frábært en það fer auðvitað mikið eftir veðrinu – og auðvitað að við losnum við þennan kórónuvírus og það komist hreyfing á hlutina á ný.
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
Fyrir utan fótboltann eru golf og stangaveiði helstu áhugamálin mín og verandi á Íslandi eru þau bæði mjög háð veðráttu ... þess vegna vonast ég eftir frábæru veðri sumar.
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
Ég held að ég eigi engan uppáhaldsstað ennþá en ég nýt þess mjög að vera úti, annað hvort á golfvellinum eða í góðum göngutúr einhvers staðar.
– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
Ég stefni á að koma Njarðvík upp í Inkasso-deildina.
– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
Ég hafði sömu plön, þeim seinkaði kannski aðeins.
– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?
Það hefur ekki margt breyst, eyði meiri tíma heima með fjölskyldunni og hef komið ýmsu í verk á heimilinu.
– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?
Já, mér finnst meirihluti fólks hafa verið að virða reglurnar og ég held að það sjáist á því hve hratt og vel Íslendingum hefur tekist að takast á við sjúkdóminn sem þjóð.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Ég held að við getum dregið þann lærdóm af þessum faraldri að njóta þess að eyða meiri tíma með fjölskyldum okkar og ekki að taka lífinu sem sjálfsögðum hlut.
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Ég hef aðallega verið að nota Zoom og FaceTime til að halda sambandi við fjölskyldu og vini í Skotlandi, enda hefur ástandið hjá þeim verið töluvert verra en hér þar sem útgöngubann hefur verið í gildi.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Ég myndi að öllum líkindum hringja í pabba þar sem hann er sá sem ég tala mest við heima og það er alltaf gott að heyra í honum hljóðið.
– Ertu liðtækur í eldhúsinu?
Ég hef pottþétt skánað í eldhúsinu eftir að hafa kynnst Ólöfu, ég myndi ekki segjast vera frábær en kannski svona sex af tíu LOL
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Líklegast myndi ég segja að bananabrauð sé það skemmtilegasta sem ég baka þar sem útkoman er aldrei sú sama – svo ég veit aldrei hvað ég fæ :-)
– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Beef Wellington 100%
– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?
Lakkrís! Ég veit að Íslendingar verða ekki kátir að heyra þetta en ég hata lakkrís og gæti aldrei borðað hann.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Ólöf bakaði Muffins.
– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?
Ég myndi kannski bara vonast eftir að hitta á megaviku hjá Domino’s.
Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?
– Geturðu sagt okkur eitthvað sem við vitum ekki um þig?
Ég er mikið Chelsea-aðdáandi og hef farið á Stamford Bridge síðan ég var tíu ára gamall.