Kemst vonandi á skíði
Thelma Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Á að ferðast eitthvað yfir páskahelgina? - Ef ekki, hvernig á að verja helginni?
Ég ætla að vera heima um páskana slaka á, borða góðan mat, hitta vini og vonandi kemst ég á skíði. Verð þó líka að læra enda í MBA námi með vinnu og þar er ekki í boði að slá slöku við.
Áttu þér einhverjar hefðir sem tengjast páskunum?
Nei ólíkt jólunum, þar sem er allt morandi i hefðum, þá er ekkert sérstakt sem ég geri á hverju ári um páskana nema kannski borða páskaegg.
Hvað er borðað á þínu heimili á páskadag?
Oftast lamb en eiginmaðurinn prófar oftast nýja eldunaraðferð á hverju ári en hann er algjör snillingur í eldhúsinu og sér í raun næstum alfarið um eldamennskuna á heimilinu.
Hvernig páskaegg ætlar þú að fá þér í ár?
Er spennt fyrir fylltu lakkríseggi frá Góu en málshátturinn er samt alltaf mest spennandi sem og að fela páskaegg fyrir strákana mína.