„Kem labbandi heim“
-Sólveig Sigurðardóttir úr Grindavík er lömuð eftir heilablóðfall en leitar lækninga til Noregs
Lífið tekur oft óvænta stefnu og ekki alltaf til góðs. Það fékk Sólveig Sigurðardóttir úr Grindavík að reyna fyrir skemmstu en hún fékk alvarlegt heilablóðfall þann 19. september sl. Sólveig er nú í endurhæfingu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hefur þegar náð undraverðum bata og þó að hún sé að mestu lömuð vinstra megin í líkamanum getur hún komist flestra leiða sinna með því að ganga við staf. Þrátt fyrir það er enn að miklu að keppa og vill hún nú freista þess að ná enn betri árangri með taugasvörunarmeðferð í Noregi. Það ferli er hins vegar kostnaðarsamt og leitar hún því eftir stuðningi samborgara sinna.
„Ég var bara heima að þrífa heita pottinn þegar ég datt niður og sonardóttir mín þriggja ára kemur að mér og kallar inn í hús að amma sé sofandi í heita pottinum,“ segir Sólveig í samtali við Víkurfréttir um daginn örlagaríka, en hún hafði áður fundið fyrir höfuðverkjum sem voru greindir sem mígreni.
Fólkið hennar hringdi strax á sjúkrabíl og var Sólveig komin í aðgerð innan við klukkustund síðar. Slagið var mjög alvarlegt þar sem 4 sm breiður æðagúlpur sprakk við heila og segir Sólveig sjálf að tvísýnt hafi verið um að hún lifði af fyrstu nóttina.
„Ég var í gjörgæslu í nokkra daga og vissi ekki af mér, svo var ég flutt á Grensás og byrjaði í æfingum 9. október. Svo byrjaði ég hér suður frá sem er allt annað. Ég kem hingað á morgnanna og æfi, og get svo farið heim á kvöldin, en aðstaðan og sjúkraþjálfarateymið hérna eru frábær.“
Þrátt fyrir að góður árangur hafi náðst segist Sólveig staðráðin í að ná frekari bata. Hún fékk hugljómun fyrir nokkrum vikum þegar hún las viðtal í Fréttablaðinu við mann sem hafði verið í svipaðri stöðu en náð töluverðum bata með því að leita óhefðbundinna lækninga. Hann fór út til Noregs þar sem hann fór í svokallaða taugasvörunarmeðferð hjá taugasérfræðingnum Geir Flatabø. Sú meðferð felst í því að rafskaut eru tengd við höfuð viðkomandi og hann látinn vinna hugarverkefni af tölvuskjá. Með því á að vera hægt að hleypa taugaskilaboðum framhjá skemmdum svæðum í heilanum niður í líkamann með því að virkja önnur svæði í heilanum sem hafa ekki verið notuð.
„Þegar ég las þetta viðtal hugsaði ég að þetta væri eitthvað fyrir mig og varð alveg friðlaus,“ sagði Sólveig sem stefndi strax að því að drífa sig út. Mágkona hennar býr í Noregi, skammt frá Osló, og hefur verið í sambandi við Flatabø sem býr í Ulvik ekki langt frá Bergen. Sólveig stefnir að því að halda utan ásamt manni sínum í lok mánaðar en ferlið gæti tekið um 2-3 mánuði auk þess sem það er afar kostnaðarsamt. Þar sem taugasvörunarmeðferðin fellur undir óhefðbundnar lækningar kemur ekkert framlag frá Tryggingarstofnun, og þess vegna hefur styrktarreikningur verið stofnaður fyrir Sólveigu í Sparisjóðnum til að létta undir með þeim.
„Það er enn að nokkru að keppa fyrir mig því að ég get ekkert hreyft vinstri höndina og er alveg stíf í ökklanum þó ég sé með smá hreyfigetu í fótleggnum.“ Henni liggur líka á að komast út sem fyrst áður en höndin festist varanlega.
„Ég geri mér miklar vonir og reyni að einbeita mér að því að þetta muni ganga og ég fái bata. Það er þessi bjartsýni og jákvæðni sem hefur skilað mér úr stólnum segja læknarnir mér. Ég ætla ekki að lofa því að ég komi hlaupandi heim og ég fer ekki handahlaup því ég gat það ekki áður, en ég kem labbandi heim. Ég lít björtum augum fram á veginn en þetta verður erfitt og það verður gott ef einhverjir sjá sér fært um að leggja mér lið því margt smátt gerir eitt stórt,“ segir baráttumanneskjan Sólveig að lokum.
Texti og mynd: Þorgils Jónsson
Styrktarreikningur Sólveigar er:
1193-05-1260 Kt: 020761-4239