Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

 Keilir tekinn með trompi
Þriðjudagur 27. apríl 2010 kl. 13:25

Keilir tekinn með trompi

Keilir fagnar 3ja ára afmæli í byrjun maí nk. Keilir er frumburður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og var hugsaður sem kjarninn í uppbyggingu menntasamfélagsins og þekkingarþorpsins að Ásbrú.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við höldum að þau markmið hafi gengið vel eftir,“ segir Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri. „Markmiðið var að ná til Keilis 500 nemendum á fimm árum. Þeir eru 602 í dag, þannig að Keilir er oðinn eins og meðal framhaldsskóli að stærð“.


Í dag eru fastir starfsmenn Keilis 23 en samtals eru um 100 manns sem koma að einhverri vinnu hjá fyrirtækinu. Þá er Keilir að velta um 500 milljónum króna á ári. Hjálmar segir fyrstu þrjú ár skólans hafa gengið alveg ótrúlega vel. Vissulega sé skólinn að mæta ýmsum brekkum sem starfsfólk skólans lítur á sem eðlilegt viðfangsefni. „Okkar sjónarmið er og verður alltaf að gera okkar besta og þannig mun okkur ganga vel,“ sagði Hjálmar.

Umsóknir um skólavist á komandi hausti eru í dag orðnar miklu fleiri í dag en á sama tíma í fyrra, segir Gunnhildur Vilbergsdóttir forstöðumaður heilsuskóla og markaðsstjóri hjá Keili.


Stoðir Keilis hitta í mark

„Þetta segir okkur það að þær stoðir sem hafa verið byggðar upp hjá Keili hafa hitt í mark. Það var strax tekin um það ákvörðun að Keilir ætti ekki að vera eins og hinir skólarnir, heldur ætluðum við inn á þau svið sem hafa verið vanrækt í skólakerfinu og við teljum okkur hafa hitt inn á það,“ segir Hjálmar.

Hann segir Háskólabrú Keilis vera að hitta í mark hjá fólki sem kýs að setjast aftur á skólabekk enda sé helmingur nemenda Keilis á háskólabrú. „Þar erum við að gefa hópi fólks annað tækifæri í lífinu. Meðalaldur nemenda er 30 ár og við teljum árangur okkar byggjast á því að við erum að veita þessu fólki þjónustu. Það er rauði þráðurinn í hugsun starfsfólks Keilis, að veita þjónustu,“ segir Hjálmar.

Hjálmar segir háskólabrúna vera einn skemmtilegasta námshóp sem hann hefur hitt í gegnum tíðina. „Þetta fólk er komið hingað til að læra og okkar hlutverk er að telja í það kjark - og það er mjög gaman“.

Annað sem slegið hefur í gegn hjá Keili er ÍAK einkaþjálfun. Gunnhildur heldur utan um heilsuskólann og hann á að tengjast allri þeirri miklu uppbyggingu á heilsusviði, innan vallar og utan. „Við erum með Bláa lónið og hér er að koma sjúkrahús sem er að fara að veita útlendingum þjónustu. Við munum vinna með þeim,“ segir Hjálmar og Gunnhildur bætir við: „Tengingin í dag liggur helst í endurhæfingarhlutanum. Aðgerðir sem verða framkvæmdar hér að Ásbrú kalla á mjög mikla endurhæfingu. Þar er komin mikil tenging við okkar nám. Einnig erum við í dag að skoða fleiri tengingar við samfélagið hér í kring“.


Læknar mæla með ÍAK einkaþjálfurum

Besta viðurkenningin fyrir ÍAK einkaþjálfara er sú að læknar mæla með því við sína skjólstæðinga sem eru að byggja sig upp, að leita til ÍAK einkaþjálfara. Miklar kröfur eru gerðar í ÍAK einkaþjálfaranáminu. Það er kennt að Ásbrú og í útibúum á Akureyri og í Þýskalandi, þar sem silfurdrengirnir í handknattleik, strákarnir okkar, eru nemendur Keilis.
Gunnhildur segir það gaman hvað það komi öllum á óvart þegar þeir hefja einkaþjálfaranámið, hvað þeir kunna í raun lítið. Skiptir þá engu hversu lengi fólk hafi verið í heilsurækt. Gunnhildur tekur sem dæmi silfurdrengina sem hafa stundað æfingar alla sína tíð. Á fyrstu vinnuhelginni þeirra í ÍAK einkaþjálfaranáminu sögðust þeir í raun vera alveg tómir. Námið gangi vel og Keilisfólk er ánægt hvernig til hefur tekist.


Eins og að tölvuvæða flugið

Þriðja stoðin í námi Keilis er Flugakademía Keilis. Þar er Keilir að gera flugnám að hluta að hinu almenna menntakerfi. Nám í flugumferðastjórn og flugfreyjunám er orðið hluti af skólakerfinu. Fyrstu hóparnir eru þegar úrskrifaðir og hafa hafið störf í flugturninum í Keflavík og hjá flugfélögum um allan heim.

„Stóra byltingin er kennslan í sjálfu fluginu. Við erum með nýjar vélar sem eru algjör bylting. Við getum sagt að þetta sé eins og að tölvuvæða flugkennsluna með þessum vélum, miðað við þær vélar sem hafa verið notaðar til flugkennslu“.

Hjálmar segir að Flugakademía Keilis horfi mikið til þess að ná í útlendinga til að stunda flugnám hér á landi. Hann segir fyrstu útlendingana vera byrjaða að fljúga með Keili og sá fyrsti hafi þegar verið útskrifaður. Hann var frá Möltu og nú sé flugnemi frá Ísrael við skólann. Þá sé hópur á leiðinni til landsins að læra flug og hann komið víða að úr Evrópu. Ástæðuna segir Hjálmar vera þá, að hjá skólanum séu toppkennarar og flottar græjur. Þá sé verðið á náminu einnig hagstætt. Flugnám á Íslandi kostar aðeins um 60% af því sem það kostar í Danmörku. Það sé hins vegar bæði verðið og veðrið sem dragi nemendur til Íslands. Hér sé ákjósanlegt að læra í misvindasömu veðri og allar þær aðstæður sem eru hér á landi hafa getið af sér mjög hæfa flugmenn, segir Hjálmar. Þá sé nægt loftrými stór og mikilvægur kostur enda mikil samkeppni um loftrými.

Flugakademía Keilis hefur fengið góða kynningu í flugheiminum. Nýverið birtist mynd af flugvél Keilis á flugi yfir gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi á einni vinsælustu vefsíðu þeirra sem lifa í flugheiminum. Þá hefur Keilir unnið að því með markaðsfyrirtæki að gera Keili meira áberandi þegar kallað er eftir leitarniðurstöðum á leitarvélum á netinu.
Flugakademía Keilis er einnig í útrás innanlands og hefur farið um landið til að kynna flugnámið. Keilir hefur farið á nokkra flugvelli um landið og kynnt flugnámið. Ef nógu margir nemendur eru á viðkomandi svæði, þá geta þeir tekið bóklegt nám í fjarnámi og Keilir mætir síðan með flugvélar á staðinn fyrir verklega hlutann.


Aðstaðan og hugmyndirnar til staðar

Önnur námsbraut sem er komin langt í þróun í samstarfi við Háskóla Íslands er forvarna- og fíkniráðgjöf. Námið mun byrja sem eins árs nám og er ætlað öllum þeim sem eru að veita ráðgjöf á ýmsum sviðum, s.s. vegna áfengis, fíkniefna, reykinga og átröskunar, svo eitthvað sé nefnt. Námið er unnið í samstarfi við þrjár deildir Háskóla Íslands.
„Þetta er allt það sem við erum að gera eða ætlum að fara að gera og byggir allt á því að aðstaðan er hér til staðar og það er góður stuðningur stjórnarmanna Keilis og starfsfólkið hefur alveg óskaplega gaman af því að vinna innan þessa fyrirtækis. Okkar hlutverk er að búa til og hjálpa öðrum að búa til líf á Ásbrú. Það eru ekki margir sem fá það tækifæri. Aðstaðan er til staðar, hugmyndirnar eru til staðar og þetta hefur gengið alveg vonum framar. Við höldum að Keilir sé kominn til með að vera og verði innan ekki svo margra ára 1000 manna skóli“.


Keilir er í dag með kennsluaðstöðu á tveimur stöðum að Ásbrú. Annars vegar í kirkjunni að Ásbrú, þar sem skólinn var stofnaður, og hins vegar í frumkvöðlasetrinu Eldey. Nú eru hafnar framkvæmdir í byggingu 910 þar sem skólinn verður allur undir einu þaki. Áætlanir gera ráð fyrir að skólinn verði þar undir einu þaki strax í haust á 5400 fermetrum. Að sjálfsögðu verður einnig starfsemi í íþróttahúsinu og síðan í flugskýli Keilis.


Viðburða- og verkefnastjórnun tekin með trompi

Keilir hefur sett saman eins árs námslínu í viðburða- og verkefnastjórnun sem er breyting frá því frumkvöðlanámi sem Keilir hefur verið með. Eins og námslínan er teiknuð upp, þá er hún í takti við sjónvarpsþætti Donald Trump, The Apprentice. Námslínan heitir því Tromp, en við berum það fram sem Trump, segir Gunnhildur og brosir. Í náminu verða kenndir grunnkúrsar eins og markaðsfræði, samningatækni, verkefnastjórnun, fjármál og annað í grunninn. „Stór hluti af einingunum eru síðan raunverkefni í samvinnu við raunveruleg fyrirtæki og sveitarfélög. Þar fá nemendur þau verkefni að búa til ákveðinn viðburð, fá tilboð í viðburði eða stjórna ákveðnum verkefnum eins og markaðsherferðum“.


Þau Gunnhildur og Hjálmar nefna hér allar þær hátíðir sem haldnar eru á Suðurnesjum yfir árið. 17. júní er nærtækt dæmi, þar sem sveitarfélag gæti leitað til nemendahóps í Trompinu og látið hann koma með hugmyndir að dagskrá og jafnvel fengið nemendur til að fylgja verkefninu eftir alla leið. Þau eiga jafnframt von á því að næsti opni dagur að Ásbrú eftir ár verði skipulagður af nemendum í Trompi.


Frábrugðið sjónvarpsþáttunum, þá er enginn rekinn heim. Hugmyndin er hins vegar að nemendur geti gert mistökin í skólanum og að námið sé ekki bara í bókinni. Þarna getur fólk sem er að stjórna menningarhátíðum, íþróttahátíðum, bæjarhátíðum, kosningastjórar og margir aðrir sótt sér menntun og reynslu.

Með tæknimenn á heimsmælikvarða frá HS Orku


Síðasta stoðin í námi Keilis er orkusetur og orkuskóli Keilis. Að Ásbrú er verið að koma upp einni fullkomnustu rannsóknaaðstöðu á landinu og fjárfestingu upp á milljónir króna. Þar verða meðal annars tveir þriggja metra háir róbótar. Keilir mun skapa aðstöðu fyrir sína nemendur í Bs námi í tæknifræði í samvinnu við Háskóla Íslands og orkufyrirtækin.Hjálmar segir námið hagnýtt og þar sé m.a. nýtt þekking tæknimanna hjá HS Orku. Þeir sem útskrifast frá skólanum geta því að loknu námi tekið að sér rekstur orkuvera. Keilismenn sjá mikil tækifæri í þessu námi fyrir útlendinga. Samstarf er við Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Jarðhitaskólann sem þegar hafa útskrifað hundruð nemenda í gegnum tíðina. Námið er aðallega tengt jarðhita og því sem kallað er megatróník. Þar er unnið með rafstýringar ýmiskonar og jafnvel þróun og smíði gerviútlima. Þá er kennd orkutæknifræði, sem er mikið það sem horft er á til framtíðar. Þar er verið að tala um nýtingu á sólarorku, vindorku, jarðvarma, metan, vindmyllur og sjávarorku. „Það er mikil framtíð í orkutæknifræðinni,“ segir Gunnhildur. Nú er verið að setja saman eins árs nám sem miðar að því að þjálfa starfsfólk fyrir jarðvarmaver víðsvegar um heiminn. Þar mun Keilir kalla til tæknimenn hjá HS Orku sem eru á heimsmælikvarða. Fyrstu hóparnir koma þegar í sumar.

Efsta mynd: Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis og Gunnhildur Vilbergsdóttir forstöðumaður heilsuskóla og markaðsstjóri hjá Keili. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson