Keilir: Hérna er nýjasta skólastofan okkar
„Við erum ólík. A og B manneskjur, innhverf eða félagslega virk, þurfum næði eða þrífumst í umhverfi með öðrum. Það hentar ekki að setja okkur öll í sama boxið. Við erum hreyfanleg, virk og gagnvirk, og við viljum ekki að byggingar eða aðstæður skilgreini hvar, hvernig eða hvenær við lærum,“ segir á fésbókarsíðu Keilis nú í morgun þar sem deilt er myndum af nýrri og óvenjulegri skólastofu hjá Keili.
Og áfram er skrifað: „Fólk lærir ekki lengur á þeim stöðum sem við höfum fyrirfram skilgreint sem námsaðstöðu. Við lærum þar sem okkur hentar og þegar okkur hentar. Við erum farin að læra allsstaðar annarsstaðar en við skrifborðið á skrifstofunni með bókunum og borðtölvuna. Við lærum við borðstofuborðið, í eldhúsinu, í rúminu, á gólfinu, á kaffihúsinu, með vinum okkar. Við lærum hvar og hvenær sem okkur hentar best.
Í Keili áttuðum við okkur á því að það var ekki nóg að breyta því hvernig námið fer fram, við þurftum líka að endurskilgreina í hvernig umhverfi það færi fram. Ef okkur líkar vel við að læra í hlýlegu, frjóu og fjölbreyttu umhverfi, afhverju ættu þá skólastofurnar að vera kerfisbundin og vélræn uppröðun á borðum og stólum sem beina allri athyglinni að kennaranum.
Skólastofurnar okkar eru þannig að breystast úr því að kennarinn sé í aðalhlutverki og nemendurnir sitja eins og óvirkir hlustendur, yfir í lifandi umhverfi sem virkjar nemendur á þeirra forsendum.
Hérna er nýjasta skólastofan okkar“.