Keilir fékk lundann frá Keili
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, tók í gærkvöldi við Lundanum frá Kiwanisklúbbnum Keili. Lundinn var þá afhentur í tíunda skiptið við sérstaka athöfn í lunda- og svartfuglsveislu klúbbsins.
Lundinn var fyrst afhentur árið 2002 og þá hlutu hann þeir Vilhjálmur Þorleifsson og Óskar Ívarsson starfsmenn áhaldahúss Reykjanesbæjar sem höfðu unnið í áratugi við að fegra bæinn.
Árið 2003 hlaut Lundann Ólafur Oddur Jónsson heitinn, sóknarprestur í Keflavíkursókn sem í mörg ár hélt uppi umræðum og fræðslu gegn sjálfsvígum.
Tómas Knútsson hlaut Lundann árið 2004, en Tómas setti á fót Bláa herinn sem hefur unnið ötullega við að hreinsa strandlengjuna og þá hefur hann stjórnað Sportköfunarskóla Íslands.
Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík og bæjarfulltrúi hlaut Lundann fyrir árið 2005. Steinþór hefur látið margt gott af sér leiða og unnið óeigingjarnt starf fyrir bæjarfélagið. Steinþór var upphafsmaður að lýsingu Bergsins og síðan hátíðinni Ljósanótt sem fylgdi í kjölfarið.
Nefndin var sammála um að Lundann 2006 skyldi hljóta Sigfús B. Ingvason prestur í Keflavík.
Nefndin var sammála um að Lundann 2007 skyldi hljóta Erlingur Jónsson. Erlingur hefur látið til sín taka á árinu í forvarnarstarfi í Reykjanesbæ og hefur ritað ófáar greinar um skaðsemi eiturlyfja.
Nefndin var sammála að Lundann árið 2008 skyldi hljóta, Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður í Björginni – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja.
Árið 2009 fékk Karen J. Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar lun dann.
Það voru síðan félagarnir Haraldur Haraldsson og Halldór Halldórsson úr Björgunarsveitinni Suðurnes sem fengu Lundann 2010 en þeir félagar fóru fyrstir með íslensku rústabjörgunarsveitinni til Haiti um miðjan janúar í fyrra og unnu þar þrekvirki.