Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Keflvískur ískóngur á Íslandi
Gylfi mundar deigið fyrir brauðformin í Valdísi. Myndir/KjartanMagnússon
Sunnudagur 30. júní 2013 kl. 14:14

Keflvískur ískóngur á Íslandi

Ætlaði að opna veitingastað í Keflavík en fékk ekki húsnæði. Upplifir algera geggjun í nýrri ísbúð, Valdísi, á Granda í Reykjavík.

Ætlaði að opna veitingastað í Keflavík en fékk ekki húsnæði. Upplifir algera geggjun í nýrri ísbúð, Valdísi,  á Granda í Reykjavík.

„Maður verður að gera eitthvað „júníkk“, eitthvað öðruvísi, til að ná árangri í dag. Þetta er líka „sjó-bisness“ en umfram allt verður maður að vera með gæðin á hreinu, gott hráefni og hjá okkur hefur það líka hjálpað mikið að vera með sanngjarnt verð. Það segir manni eitthvað ef einhver kemur sjö daga í röð en það höfum við upplifað,“ segir nýjasti ískóngurinn á Íslandi, Keflvíkingurinn Gylfi Valdimarsson en hann opnaði ísbúðina Valdísi í maí síðastliðnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gylfi segir að það sé lyginni líkast hvernig viðtökur Valdís hafi fengið. „Traffíkin hefur aukist jafnt og þétt og bara minnkar aldrei. Það virðist ekki skipta neinu máli hvernig veðrið er. Það hefur jú oft verið sagt að sól auki sölu á ís en hjá okkur hafa nýjungar greinilega fallið í kramið hjá landanum.“

Gylfi segir að í Valdísi sé allur ís gerður frá grunni á staðnum, engar blöndur komi frá öðrum framleiðendum. „Það er allt betra ef þú sérð hlutina gerða á staðnum. Við gerum vöffluformin hér á staðnum og það er yndislegt að finna lyktina af þeim. En það er auðvitað fleira. Við erum í skemmtilegu húsnæði hér úti á Granda, tónlistin og jafnvel bílastæðin heilla en auðvitað í fúlustu alvöru gerði ég ekki ráð fyrir svona viðbrögðum. Þetta er búið að vera algert fíaskó, alger „sökksess,“ segir nýi ísmaðurinn.

Gylfi er matreiðslumaður að mennt og starfaði sem slíkur á Hilton hótelinu í fimm ár og síðan á Danmarks Radio í sex ár og var í Danmörku í tólf ár. Keflvíkingurinn ákvað að nú væri rétti tíminn til að breyta til og stefnan var að opna veitingastað í bítlabænum síðastliðið haust. Það gekk þó alls ekki en Gylfi reyndi að fá inni með veitingastað á þremur stöðum í bæjarfélaginu án árangurs. „Ég náði bara alls ekki saman með eigendum húsakynnanna og því ákvað ég að sigla á önnur mið,“ segir þessi tæplega fertugi Keflvíkingur.

Hann hafði fylgst með ísmenningunni í Danmörku og séð að þar hafði hinn hefðbundni „ís úr vél“ eins og Íslendingar eru vanir, dalað í Danaveldi. Ítalski kúluísinn var á hraðri leið upp vinsældalistann. Hann ákvað því að setja upp ísbúð á Íslandi. Hann fann námskeið í ísgerð hjá ítölskum ísgerðarmanni í New York, dreif sig út og lærði ísgerð. Kom aftur heim og eftir leit náði hann samningum um leigu á húsnæði undir nýju ísbúðina, í verbúð úti á Granda í Reykjavík. „Ég náði að sannfæra eigandann um að ný ísbúð myndi gera sig á þessum stað og nágrannar hafa brosað breitt eftir opnun því hingað hefur fjöldi fólks komið.“

Í áætlunum fyrir opnun gerði Gylfi ráð fyrir því að vera með tvær stúlkur á vakt auk sín og hann ætlaði að vinna frá 9 til 16. En þróunin hefur orðið allt önnur og í raun ævintýraleg. Nú starfa um tuttugu manns í Valdísi og Gylfi sjálfur vinnur frá sjö á morgnana til ellefu á kvöldin. „Þetta er náttúrulega magnað. Viðbrögðin hafa orðið miklu meiri og betri en ég átti von á og gerði áætlanir um. Ég verð að fá mér manneskju sem getur bakkað mig upp.“

Gylfi og Valdimar faðir hans fyrir framan Valdísi.

Ferskleikinn í fyrirrúmi
Eitt af lykilatriðum í rekstrinum hjá Gylfa er að kúnnarnir fái ferska vöru og það er hún svo sannarlega í Valdísi. Ferskur ís er gerður fyrir hvern einasta dag, 14 tegundir í borði bíða viðskiptavina sem margir hverjir lenda í valkvíða. Þeim stendur til boða ekki bara þessar hefðbundnu tegundir eins og súkkulaði og vanillu, sem eru auðvitað til, heldur fjölmargar aðrar eins og t.d. sítrónusorbet, tíramí-sú og miklu fleiri. Sorbet-ísinn er mjólkurlaus og gerður úr sykurblöndu og ferskum ávöxtum.

Gylfi leggur áherslu á að þjónusta viðskiptavini vel, t.d. með góðri svörun við spurningum sem koma á Facebook-síðu staðarins. En auðvitað er til „ís úr vél“ í Valdísi en hann er líka heimagerður eins og annað í Valdísi. „Þú getur fengið þér mjólkurhristing, sjeik, og valið þér tegund í borðinu sem við blöndum saman við góða vanilluísinn okkar úr vélinni,“ segir Gylfi.

Ísbúðin er í skemmtilegu nágrenni við listamenn sem hafa komið sér fyrir í gömlu verbúðunum í Grandagarði. Sjómannasafnið er beint á móti og Sögusafnið verðu opnað í gamla Ellingsen-húsinu innan tíðar.

Gylfi segir okkur frá því að 65% viðskiptavina séu konur, kvenna- eða stúlknahópar en stelpurnar draga oft með sér kærastana. Um 5% eru karlar sem koma einir og kaupa sér ís og helst úr vél. Þrjátíu prósentin eru blandaður hópur.

Ísbúðin átti að heita Landís og Gylfa vantaði smá yfirdrátt í Landsbankanum og það gekk ekki alveg eins og hann vildi og því ákvað Keflvíkingurinn að fá smá lán frá föður sínum, Valdimar Þorgeirssyni. Það lá því beint við að nefna búðina eftir honum, Valdís, var það heillin.

En við höfðum heyrt af löngum biðröðum í Valdísi, er það ekki eitthvað sem Gylfi er ósáttur við?

„Ótrúlegt en satt, nei. Fólk er alls ekki ósátt. Biðin er heldur aldrei mikið lengri en tíu mínútur. Þetta er mjög sérstök stemmning hérna, svona svolítið eins og á bar. Þú veist þú þarft oft að bíða þar eftir drykknum þínum,“ segir Gylfi hlægjandi.

Gylfi með hluta af starfsfólkinu sem nú telur orðið 20 manns, miklu meira en kappann óraði fyrir.

-