Keflvískt þjóðhátíðarlag
Gunnar Ingi Guðmundsson samdi þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja fyrir árið 2003 og skipar sér þar með á bekk með ýmsum þjóðþekktum einstaklingum í gegnum tíðina. Gunnar Ingi er 24 ára Keflvíkingur og hefur komið að tónlist töluvert lengi, en Gunnar var í hljómsveitinni Topaz sem var starfandi frá 1999 til 2002. Vinur Gunnars, Ellert Rúnarsson úr Keflavík sem starfar sem margmiðlunarfræðingur í Danmörku samdi texta lagsins sem heitir "Draumur um þjóðhátíð“. Gunnar Ingi segir að hann hafi rekist á auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem auglýst var eftir lögum í samkeppni um Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja. Í kjölfarið settist Gunnar niður og samdi lagið. „Þegar ég var búinn að semja lagið hafði ég samband við Ellert í Danmörku og spilaði lagið fyrir hann í gegnum síma. Ellert hefur stúdíó aðstöðu þarna úti og hann fór í að skrifa texta og taka lagið upp. Hann sendi síðan lagið í keppnina.“
Lagið sigraði keppnina, en 12 manna dómnefnd valdi úr innsendum lögum sem voru alls 23 talsins. Gunnar segir að þeir hafi vitað að þeir væru með nokkuð sterkt lag og voru nokkuð sigurvissir. „Það var haft samband við mig og mér tilkynnt að lagið hefði unnið. Ég var að sjálfsögðu mjög ánægður með sigurinn,“ segir Gunnar.
Lagið „Draumur um þjóðhátíð“ hljómar nú á öldum ljósvakans og er mikið spilað. Lagið er flutt af Skítamóral og segir Gunnar að hann sé ánægður með útkomuna. „Ég útsetti lagið sjálfur og er mjög ánægður.“
Gunnar segir að stefnan sé tekin í áframhaldandi rafbassanám í tónlistarskóla FÍH. „Ég hef mikinn áhuga á því að koma að tónsmíðum í framtíðinni og set stefnuna þangað,“ segir Gunnar, en hann semur talsvert af lögum og segist eiga 30 lög á lager. Aðspurður hvort Gunnar ætli á þjóðhátíð segist hann ekki komast. „Hvorki ég né Ellert komumst á þjóðhátíð, enda er nóg fyrir mig að heyra lagið í útvarpinu,“ segir Gunnar að lokum.
VF-ljósmynd: Gunnar Ingi Guðmundsson.
Lagið sigraði keppnina, en 12 manna dómnefnd valdi úr innsendum lögum sem voru alls 23 talsins. Gunnar segir að þeir hafi vitað að þeir væru með nokkuð sterkt lag og voru nokkuð sigurvissir. „Það var haft samband við mig og mér tilkynnt að lagið hefði unnið. Ég var að sjálfsögðu mjög ánægður með sigurinn,“ segir Gunnar.
Lagið „Draumur um þjóðhátíð“ hljómar nú á öldum ljósvakans og er mikið spilað. Lagið er flutt af Skítamóral og segir Gunnar að hann sé ánægður með útkomuna. „Ég útsetti lagið sjálfur og er mjög ánægður.“
Gunnar segir að stefnan sé tekin í áframhaldandi rafbassanám í tónlistarskóla FÍH. „Ég hef mikinn áhuga á því að koma að tónsmíðum í framtíðinni og set stefnuna þangað,“ segir Gunnar, en hann semur talsvert af lögum og segist eiga 30 lög á lager. Aðspurður hvort Gunnar ætli á þjóðhátíð segist hann ekki komast. „Hvorki ég né Ellert komumst á þjóðhátíð, enda er nóg fyrir mig að heyra lagið í útvarpinu,“ segir Gunnar að lokum.
VF-ljósmynd: Gunnar Ingi Guðmundsson.