Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 5. desember 2000 kl. 11:10

Keflvísk ópera frumflutt í Kjarna

Tveir stuttir hlutar úr nýrri óperu eftir Keflvíkinginn Sigurð Sævarsson verða fluttir í Kjarna laugardaginn 9. desember. Óperan heitir Z-ástarsaga og er byggð á samnefndu skáldverki Vigdísar Grímsdóttur, en Vigdís er eitt af skáldunum sem mun lesa úr nýjum verkum sínum þennan sama dag í Kjarna. Silja Dögg Gunnarsdóttir mælti sér mót við Sigurð og spurðist fyrir um verkið, námsárin í Bandaríkjunum, söngferilinn, hvernig það væri að vera tónskáld á Íslandi og framtíðina.


Stílbrot að hafa karlmann
„Textinn er stytt útgáfa af bókinni en verkið er skrifað fyrir hljómsveit og píanó. Í verkinu eru bara þrjár persónur, allt konur. Bókin er reyndar lengri en verkið og þar koma fyrir fleiri persónur. Ég valdi semsagt hluta úr bókinni og samdi tónlist í kringum það. Ég ætlaði fyrst að hafa karlmann
með en fannst það vera stílbrot þegar ég hóf að semja tónlistina“, segir Sigurður þegar hann er beðinn um að útskýra útfærsluna á verkinu.

Á milli svefns og vöku
Um hvað er óperan?
„Óperan gerist eina kvöldstund. Hún hefst á því að Anna, aðalsögupersónan, er á leið í bústað að vetri til. Hún er mjög veik og ætlar að stytta sér aldur þar. Á öðrum stað bíður Zeta, ástkona Önnu. Hún veit hvað Anna hyggst gera. Arnþrúður, systir Önnu, kemur til Zetu og er að leita að systur sinni, þar sem hún hafði útskrifað sig af sjúkrahúsinu fárveik. Zeta segir ekkert, þó hana langi til þess. Hún hefur lofað Önnu að segja engum fyrr en allt er yfirstaðið. Sagan færist á milli Önnu og Zetu. Anna er með poka fullan af bréfum frá Zetu og hún fer að lesa þau, eitt og eitt og kastar þeim síðan jafnóðum í eldinn. Zeta er á meðan að fara með ljóð fyrir Arnþrúði sem Anna hafði samið“, segir Sigurður til útskýringar.
Stemningin í verkinu er einhvers staðar á milli svefns og vöku að sögn Sigurðar. „Margir hafa upplifað það að sitja yfir veikum ættingja sem þeir vita að er að fara að deyja. Þá myndast sérstakt andrúmsloft, þessi einmanalegi doði og allar minningarnar sem fylla hugann. Ég hef reynt að skapa það andrúmsloft í tónlistinni.“
Er tónlistin þá agalega drungaleg?
„Nei, ég myndi ekki segja það. Hún er blíð en kannski svolítið einmanaleg og ljúfsár. Þetta er aðgengileg, melódísk tónlist, og frekar þægileg“, segir Sigurður, en upplifunin segir meira en mörg orð um tónlistina og því ætti fólk að drífa sig í Kjarna nk. laugardag og hlusta á verkið með eigin eyrum.

Of mikil gagnrýni ekki góð
Ásgerður Júníusdóttir syngur og Bjarni Jónatansson leikur með á píanó en á augardaginn verður aðeins fluttur hluti verksins. Í heild sinni tekur óperan 90 mínútur í flutningi. Þetta er í fyrsta sinn sem óperan er flutt opinberlega og Sigurður viðurkennir að taugatitringur geri af og til vart við sig. „Stundum finnst mér allt ómögulegt en aðra daga er ég rosalega ánægður. Maður verður að vera gagnrýninn á sjálfan sig en passa sig samt á að fara ekki yfir strikið á því sviði. Það er til sægur af fólki sem er að búa til allskonar hluti en fer aldrei með þá út úr herberginu“, segir Sigurður.

Hrifin af stíl Vigdísar
Hugmyndin að því að semja slíkt tónverk hefur lengi hvílt í hugskoti Sigurðar og bækur Vigdísar Gríms komu snemma til greina. „Ég las Z-ástarsögu þegar hún kom út og las hana með því hugarfari að kannski væri þetta eitthvað sem hægt væri að nota. Þegar ég var kominn fram í miðja bók sá ég að sagan væri góð í þetta verkefni. Ég var búin að lesa svolítið af ljóðum eftir Vigdísi og hef alltaf verið hrifinn af hennar stíl“, segir Sigurður.
Samstarf Vigdísar og Sigurðar gekk vel og Sigurður segir að hún hafi strax tekið vel í hugmyndina þegar hann nefndi að semja óperu eftir sögunni. „Ég sendi hennar styttingar og annað og við ræddum þær. Hún hefur ekki heyrt útkomuna ennþá, en hún heyrir verkið í fyrsta sinn á laugardaginn kemur.“
„Það er ekkert mál að sitja heima og semja en það er stórt skref að leyfa öðrum að heyra“, segir Sigurður. „Sérstaklega þegar maður er búinn að vera að í þrjú ár að vinna verkið. Ég er lærður söngvari og ég verð að segja að mér finnst auðveldara að syngja fyrir fólk. Þegar flutt eru verk eftir mig þá hefur maður enga stjórn á neinu og vonar bara að allt fari vel.“

Tónlistarfjölskyldan
Sigurður kemur frá mikilli tónlistarfjölskyldu og á því ekki langt að sækja hæfileikana. Móðir hans er Ragnheiður Skúladóttir píanóleikari og deildarstjóri hljómborðsdeildar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Systkini Sigurðar, Sigrún Sævarsdóttir básúnuleikari og Jóhann Smári hafa líka verið að gera það gott í tónlistinnni. Sigrún býr nú í London og starfar þar sem
tónlistarmaður en hún lauk framhaldsnámi þar í sumar. Jóhann Smári er menntaður óperusöngvari og er nýfluttur suður en hann bjó í nokkur ár á Akureyri þar sem hann var deildarstjóri söngdeildar tónlistarskólans. Jóhann er farinn til Frankfurt þar sem hann mun dvelja næstu mánuði og taka þátt í uppfærslu á óperu.

Framhaldsnám í Bandaríkjunum
Sigurður var í tónlistarskólanum í Keflavík, eins og hin systkinin og lærði á fiðlu þar til hann varð 11 ára. Þá tók hann sér nokkurr ára hlé frá tónlistinni en fór að læra söng upp úr tvítugu. „Ég lauk söngnámi frá Nýja Tónlistarskólanum í Reykjavík 1994. Það haust hóf ég mastersnám í söng við Boston University og einnig í tónsmíðum og lauk mastersgráðu þaðan úr báðum deildum árið 1997“, segir Sigurður en aðspurður segir hann að það hafi kostað mikla vinnu að stunda nám á tveimur brautum. „Þetta var mikil vinna en ég var vanur því frá Íslandi, þannig að þetta gekk allt upp.“

Gríðarleg samkeppni
Sigurður er giftur Dröfn Rafnsdóttur og eiga þau tvær dætur, Ragnheiði Ösp 19 ára og Sigríði Ösp 11 ára. Fjölskyldan flutti heim til Íslands þegar Sigurður hafði lokið námi.
Var það aldrei inn í myndinni að setjast að erlendis og fara út í atvinnumennskuna?
„Ég hefði svo sem getað fengið vinnu úti, ég hafði leyfi til að vinna í tæp tvö ár eftir að ég útskrifaðist. En Ísland og Íslendingar urðu fyrir valinu. Samkeppnin þarna er gríðarleg, sérstaklega þar sem þessir stóru háskólar eru. Á hverju ári útskrifast hundruðir manna og sækja um sömu stöðurnar. Hér heima gat ég hins vegar strax farið að kenna söng og tónfræðigreinar
ásamt því að sinna tónsmíðunum. Við búum núna í Reykjanesbæ og ég kenni þar við tónlistarskólann. Ég er líka skólastjóri Tónlistarskólans í Garði og kenni tvo daga í Reykjavík, þannig að það er nóg að gera“, segir Sigurður með bros á vör.

Er mikill Íslendingur í mér
Sigurður segist alls ekki sjá eftir að hafa komið heim strax að loknu námi. „Ég þekki mikið af fólki sem er búið að vera í mörg ár erlendis að reyna að „meika“ það. Sumir eru nógu hungraðir í að vilja standa á sviðinu og geta því staðið í þessu ár eftir ár, oft á lágmarks launum. Ég fann það fljótlega eftir að ég kom út að ég var í rauninni ekki þessi söngvaratýpa, allavega ekki miðað við krakkana sem ég kynntist. Einbeitingin og hungrið í velgengni var meiri en ég hafði nokkru sinni kynnst. Þó ég hefði sungið eitt af aðalhlutverkunum hjá óperudeildinni og söngnámið gengið framar vonum, fann ég að ég færðist alltaf meir og meir yfir í tónsmíðadeildina og í dag tel ég mig aðallega vera tónskáld“, segir Sigurður.
Hann viðurkennir að hann hafi þurft að fara að vinna til að sjá fyrir fjölskyldunni en þó að hann hefði verið einn þá segist hann efast um að hann hefði verið lengur úti. „Ég er svo mikill Íslendingur í mér og þó að maður sé enskufær þá vantar alltaf eitthvað upp á. Það kemur ekkert í staðinn fyrir að tjá sig á íslensku. Ég held að það skipti heldur engu máli hvar maður býr, þegar maður vinnur við tónsmíðar, þar sem fjarskiptin eru orðin það fullkomin“, segir Sigurður. Hann vill litlu uppljóstra um framtíðina en gefur samt pínulitla vísbendingu um að hann sé líklega að fara að vinna að einhvers konar óperu með þekktu ljóðskáldi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024