Keflvísk í Kardemommubæ
Jórunn Björnsdóttir og Aron Gauti Kristinsson fara með nokkur hlutverk á fjölum Þjóðleikhússins.
„Við erum með allskonar hlutverk í leikritinu. Við erum til dæmis krakkarnir í Kardemommubæ, dýrin í dýrabúðinni, dansarar og Aron er líka fjölleikamaður,“ segir Jórunn Björnsdóttir, fjórtán ára leikkona úr Reykjanesbæ. Hún og Aron Gauti Kristinsson, sem er að verða sautján ára og er einnig úr Reykjanesbæ, fara bæði með hlutverk í Kardemommubænum sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins.
„Þetta er æðisleg saga og sígild sem allir þekkja. Það er líka að koma fólk á öllum aldri á sýninguna því það þekkja allir söguna síðan þeir voru litlir krakkar. Það eru töfrarnir við þetta að það þekkja allir söguna,“ segir Aron Gauti. Víkurfréttir hittu leikarana ungu á sýningu um Kardemommubæinn í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar. Þau Aron Gauti og Jórunn eru bæði Keflvíkingar og þegar æfingar á Kardemommubænum hófust árið 2019 voru þau bæði nemendur Myllubakkaskóla. Aron hefur hins vegar lokið grunnskólagöngu og er kominn í Versló.
Kardemommubærinn er eftirlætisbarnaleikrit þjóðarinnar, gleður og sameinar kynslóðir, segir í kynningu á verkinu sem fyrst var sett á svið í Þjóðleikhúsinu árið 1960 en er núna sett á svið í sjötta sinn. Kardemommubær er yndislegur bær, fullur af skemmtilegum dýrum og litríkum íbúum. Þrennt ógnar þó friðsældinni í bænum, þrír kostulegir ræningjar, ógurlega ljónið þeirra sem elskar mjólkursúkkulaði og hin ráðríka og skapstygga Soffía frænka. Þegar ræningjarnir fá þá hugdettu að ræna sjálfri Soffíu frænku til að sjá um húsverkin fyrir sig færist heldur betur fjör í leikinn.
– Þekkið þið söguna frá því þið voruð yngri?
„Já, ég fór á sýninguna þegar ég var yngri og man vel eftir því og það er því mjög gaman að fá að taka þátt í uppfærslunni núna,“ segir Jórunn og Aron Gauti bætir við: „Bókin var lesin fyrir mig áður en ég fór að sofa. Svo á ég gamla vínilplötu frá ömmu og afa með leikritinu en það heyrist eiginlega ekki neitt af henni þar sem hún er orðin svo rispuð en ég er að kaupa nýja plötu.“
Aðspurð sögðu þau Jórunn og Aron að það væri heiður að fá að taka þátt í uppfærslu á þessu verki.
– Hvernig gerðist það að þið eruð þarna?
„Við fórum í prufur en það voru um eitt þúsund krakkar sem mættu í prufur fyrir leikritið. Það voru svo tuttugu og fjórir sem komust inn. Þetta var alls ekki sjálfsagt og við höfum unnið mikið fyrir þessu og æfa mikið en maður uppsker eins og maður sáir,“ segja þau bæði.
Í aðdraganda frumsýningar voru mjög stífar æfingar en æft var alla daga frá klukkan níu til fjögur. Aron Gauti er samhliða Kardimommubænum í Verzlunarskólanum og er að setja upp sýningu með skólanum. Kardimommubærinn hefur verið í æfingu síðan haustið 2019 en Covid setti mikið strik í reikninginn og stoppað frumsýningu tvisvar sinnum.
„Við höfum aldrei gefist upp sem betur fer og náðum að frumsýna í lok árs 2020 en þá komu aftur takmarkanir vegna Covid en við erum komin af stað aftur,“ segir Aron Gauti.
– Þið eruð bæði í skóla og að gera ýmislegt annað. Hvernig er að skipuleggja daginn fyrir ykkur?
„Allar sýningar eru um helgar en þegar æfingar stóðu yfir þá varð maður að sleppa skóla og missti auðvitað mikið úr,“ segir Jórunn og bætir við; „en svona er þetta því það er ekki alltaf sem maður fær svona tækifæri í lífinu.“
Aron Gauti segist hafa samið við skólann sinn vegna sýninganna og það sé í raun ekkert mál. „Ég legg bara meira á mig heima við lærdóminn sem er hluti af þessu. Það þarf að leggja mikið á sig ef maður ætlar að taka þátt í svona verkefni eins og Kardemommubænum.“
Það er draumur beggja að verða leikarar í framtíðinni og Jónatan er uppáhaldspersóna þeirra beggja í sýningunni. Ræningjarnir séu mjög flott þrenning en Jónatan slái algjörlega í gegn í meðförum leikarans Odds Júlíussonar.