Keflvíkingur sendiherra franskrar matargerðar í Skandinavíu
Jóhann Reynisson gerir það gott í Noregi
Jóhann Reynisson var á dögunum sæmdur nafnbótinni sendiherra franskrar matargerðar í Skandinavíu, af klúbbi matreiðslumeistara Frakklands, eða Academie Nationale De Cuisine eins og klúbburinn heitir á frönsku. Í heimi matreiðslunnar verða viðurkenningarnar varla stærri, enda eru allir frægustu kokkar Frakklands í þessum sama klúbbi. Frönsk matargerð er mikils metin á heimsvísu eins og kunnugt er.
Keflvíkingurinn Jóhann hlaut viðurkenninguna óvænt en hann hafði þá dvalið í Frakklandi í nokkra daga, þar sem hann vann að verkefni með skóla í París og brá sér á matvælasýningu með hópi franskra matreiðslumeistarar. „Á síðasta deginum með hópnum var ég tekinn inn í klúbbinn með skjali og medalíu og gerður að sendiherra þeirra í Skandinavíu,“ en viðurkenningin kom Jóhanni algjörlega í opna skjöldu enda vissi hann ekkert af athöfninni. Jóhann hefur átt í nánu samstarfi við ýmsa aðila í matreiðslu í Frakklandi undanfarin ár en sjálfur er hann búsettur í Molde í Noregi þar sem hann starfar sem yfirmatreiðslumaður á Scandic hótelinu.
„Ég var svo látinn lesa upp testamentið þeirra í klúbbnum og endaði með medalíu um hálsin. Þeir voru yfir sig hrifnir af því að við skulum læra franska matagerð heima á Íslandi og að við notum frönsk fagorð í eldhúsinu,“ segir Jóhann. Áhugi er fyrir því að franski veitingaskólinn stofni til sambands við veitingaskóla á Íslandi.