Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Keflvíkingur fyrst íslenskra kvenna í aðalráð ICAO
Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 14. október 2022 kl. 07:00

Keflvíkingur fyrst íslenskra kvenna í aðalráð ICAO

Keflvíkingurinn Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir er fyrst íslenskra kvenna til að skipa eitt af 36 sætum aðalráðs Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO). Aðalþing ICAO er haldið á þriggja ára fresti og fer það fram um þessar mundir. Þá var Ísland kosið í aðalráðið í upphafi mánaðar og verður Valdís aðalfulltrúi og Daninn Ditte Helene Band varafulltrúi Íslands til næstu þriggja ára. Valdís mun einnig stýra starfi NORDICAO, sem er samstarf Norðurlandanna, Eistlands og Lettlands en Valdís hefur síðustu þrjú ár starfað sem varafulltrúi Finnlands í aðalráði ICAO. Auk hennar á Hlín Hólm, formaður stýrihóps flugleiðsögu á Norður-Atlantshafi, sæti á þinginu. „Við eigum báðar rætur okkar að rekja til Keflavíkur og höfum unnið saman síðan ég byrjaði árið 2004 hjá flugmálastjórn,“ segir Valdís.

Alls eru 193 aðildarríki í Alþjóðaflugmálastofnuninni og 36 í ráðinu. Valdís segir línurnar fyrir komandi ár vera lagðar á aðalþinginu fyrir komandi ár og verkefni ráðsins ákveðin. „Mín verkefni eru að móta reglur og stefnur í flugmálum og rekstur alþjóðaflugmálastofnunarinnar fellur þar undir, hvernig fjármunum aðildarfélaganna er varið. Aðalþingið sem er núna í gangi leggur línurnar og svo fylgir ráðið þeim eftir,“ segir Valdís.

Þingið sem nú fer fram er sögulegt og ekki aðeins vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem kona er aðalfulltrúi fyrir Íslands hönd. „Það er búið að kjósa núna, þessu er skipt niður í þrjá flokka og það var kosið í fyrsta og öðrum flokknum núna á laugardaginn. Ísland er í flokki númer tvö og náði sæti þar. Rússland er í flokki eitt og náði ekki sæti, sem er að vissu leyti sögulegt. Einnig var þetta í fyrsta sinn sem kona stýrir aðalþinginu sjálfu,“ segir Valdís.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Sigurbergur Björnsson, Jón Gunnar Jónsson, Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Salvatore Sciacchitano, Juan Carlos Salazar, Samuli Vuokila og Hlynur Guðjónsson.

Valdís er ekki eini Keflvíkingurinn sem staddur er í Montreal fyrir vinnu á aðalþingi ICAO. Auk hennar er Hlín Hólm en hún tekur þátt í þinginu fyrir hönd Samgöngustofu. Hlín er formaður stýrihóps flugleiðsögu á Norður-Atlantshafi (NAT SPG) og er jafnframt fyrsta konan í formannsstöðu hópsins. „Hún er líka úr Keflavík og við höfum unnið saman síðan ég byrjaði árið 2004 hjá Flugmálastjórn. Við eigum báðar rætur okkar að rekja til Keflavíkur og höfum alltaf fylgst að í þessum verkefnum. Hún er að gera flotta hluti í flugheiminum,“ segir Valdís.

Byrjaði að vinna á Keflavíkurflugvelli

Valdís er með Bachelor-gráðu í félagsfræði og diplómu í opinberri stjórnsýslu og aðra í mannauðsstjórnun. Valdís hefur verið búsett í Montreal í Kanada síðan 2019 en höfuðstöðvar ICAO eru þar. Ferill Valdísar í flugheiminum hófst í starfi við innritun á Keflavíkurflugvelli árið 1992. 

„Ég byrjaði að vinna í innritun hjá Icelandair þegar ég var í háskólanámi. Ég vann þar samtals í tíu ár og fór síðan yfir til Flugmálastjórnar sem sameinaðist svo í Samgöngustofu. Þetta byrjaði þar, það leiddi til þess að ég sótti um að vera varafulltrúi Finnlands í ráðinu og var valin í það. Núna er ég orðin aðalfulltrúi Íslands,“ segir Valdís. Hún segist vera spennt fyrir nýju stöðunni en segir hana vera mikla áskorun. „Það er gott að hafa reynsluna frá varamannsstöðunni síðastliðin þrjú ár,“ bætir hún við. 

Valdís á eiginmann og tvo syni sem eru 22 og 26 ára að aldri en þeir eru búsettir á Íslandi. „Yngri strákurinn minn hefur heimsótt mig tvisvar sinnum og sá eldri einu sinni, út af Covid. Maðurinn minn, Sveinn Ingvarsson, hefur verið hjá mér af og til undanfarin þrjú ár og þá unnið fjarvinnu hjá Tryggingamiðstöðinni. Fjarvinnan hefur auðveldað okkur lífið hvað það varðar,“ segir Valdís. Hún segir það hafa verið sérstakt að búa í Kanada á tímum Covid. „Það voru svo rosalega ströng höft hér. Það var útgöngubann frá klukkan átta á kvöldin til fimm á morgnanna og það stóð yfir í átta mánuði. Það er einnig búið að vera mjög skrítið að vera í þessari vinnu á þessum tímum, þar sem fundir eru stór hluti af mínu starfi. Ég þarf að sitja fundi sem eru þýddir á sex tungumálum og þeir fundir þurftu að fara fram í gegnum Zoom,“ segir Valdís.

„Jörðin hóf hinn tryllta dans“

Valdís ólst upp í Keflavík og var meðal annars fjallkona Keflavíkurbæjar 1989. Aðspurð hvort tenging hennar við bæinn sé enn sterk segir hún: „Ég er uppalin í Keflavík og ég mæti alltaf á Ljósanótt þegar ég er heima. Ég er Keflvíkingur en flutti í bæinn þegar ég fór í háskólanám og hef í raun ekki flutt þangað aftur síðan en mamma og pabbi búa þar ennþá.“ Þá segist hún eiga margar góðar minningar frá bænum og einnig góð vinasambönd. „Félagsbíó og Nýja bíó voru aðalmálið, Bergás og Stapinn líka. Ég æfði sund með Njarðvík og ég man mikið eftir skólanum og körfuboltaliðinu,“ segir hún.

Eftir grunnskóla hóf Valdís nám við Menntaskólann í Reykjavík en árið 1989 flutti Valdís til Kaliforníu til að gerast Au Pair. Í samtali blaðamanns Víkurfrétta við Valdísi rifjaði hún upp tíma sinn þar. „Ég fékk tækifæri til þess að vera á enskunámskeiði á morgnanna og passa börn og hjálpa til á heimilinu á kvöldin,“ segir hún aðspurð hvað dró hana til Kaliforníu. Í október 1989 reið jarðskjálfti að stærð 7.0 á Richter yfir svæðið sem Valdís var á og birtu Víkurfréttir aðsenda grein frá upplifun hennar í blaðinu þann 30. nóvember 1989. „Þegar stóri skjálftinn kom var ég nýkomin inn úr dyrunum og stóð inni í herberginu mínu að lesa bréf að heiman. Þegar jörðin hóf hinn tryllta dans, datt mér fyrst í hug að hlaupa til Nanu og segja Regan að koma til okkar en einungis Nana (75 ára) og Regan (sjö ára) voru heima. Þegar allt fór svo að hrynja úr hillunum sá ég mig um hönd og ákvað að best yrði að standa í dyrunum. Ég opnaði hurðina, tók eitt skref og „búmm“ ljósakrónan frá 1911 hrundi niður þar sem ég hafði staðið. Ég stóð í dyrunum og horfði á skúffur og skápa opnast og lokast í eldhúsinu. Margt datt með látum í gólfið. Ég heyrði brak, bresti og brothljóð, auk þess sem Nana og Regan voru hágrátandi. Ég var í svo miklu uppnámi að ég kallaði til þeirra á íslensku – svona er maður gáfaður! Mér fannst húsið aldrei ætla að hætta að skjálfa en í raun stóð skjálftinn ekki yfir í nema 15–30 sekúndur [...] Ég hef svo vaknað upp þrisvar, fjórum sinnum á hverri nóttu síðan skjálftinn var, því það eru sífelldir eftirskjálftar. Blöðin kalla skjálftann „72ja tíma skjálftann“ því dansinn tekur vart enda,“ segir í greininni. 

Valdís horfir til baka og segir upplifunina hafa verið „rosalega“ og bætir við: „Þá var enginn tölvupóstur og það kostaði svo mikið að hringja að maður varð að senda bréf. Fréttirnar bárust ekki svona hratt eins og í dag. Ég man að fyrsta manneskjan sem heyrði í mér eftir þetta var frænka mín í Arizona. Svona hefur þetta allt breyst,“ segir Valdís að lokum.

Sendibréf Valdísar frá Kaliforníu má lesa hér