Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Keflvíkingar verða besta liðið í sumar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 9. maí 2020 kl. 10:43

Keflvíkingar verða besta liðið í sumar

segir knattspyrnumaðurinn Ísak Óli Ólafsson sem nú er atvinnumaður í Danmörku

Keflvíkingurinn Ísak Óli hóf atvinnumannaferilinn hjá dönsku félagsliði á síðasta ári. Hann segir að staðan á veirutímum sé nokkuð góð í Danmörku og hann líti björtum augum á framhaldið.

Það er allt að fara af stað aftur en þetta hefur verið mjög rólegt hér í Danmörku,“ segir Ísak Óli Ólafsson en hann atvinnumaður í knattspyrnu með Sonderjyske í dönsku úrvalsdeildinni í bænum Haderslev.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ísak segir að lífið hafi verið svolítið sérstakt undanfarnar vikur. „Það hefur verið erfitt á þessum tímum að vera ekki með fjölskyldunni en ég hef konuna hérna hjá mér þannig að það er nú gott og maður verður ekki einmanna. Það hafa verið mikið af hlaupum á malbikinu og svo reynir maður að halda sér gangandi með einhverjum heimaæfingum.“

– Hvernig er staðan núna í þínu umhverfi varðandi COVID-19? 

Staðan núna er frekar góð. Danirnir tóku þessari veiru mjög alvarlega frá fyrsta degi eins og á Íslandi, það hefur borgað sig. Það er ekki margt fólk á ferli en það er samt allt að fara aftur á stað. Við byrjuðum að æfa 2. maí í sex, sjö manna hópum. Það er mjög sérstakt, allir þjálfararnir eru í hönskum og allt æfingadótið sóthreinsað fyrir og eftir hverja æfingu.

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

Já, verður maður ekki að vera bjartsýnn. Deildin hjá okkur á að vera spiluð í allt sumar út af veirunni svo það verður bara gaman. Ég vona bara að allir haldi heilsunni og þessi veira fari nú að hætta herja á heiminn.

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

Mín áhugamál eru fótbolti, körfubolti, eldamennska og svo var ég að byrja í golfi. Veiran hefur haft áhrif á fótboltann, bæði að ég get ekki æft hann og svo er hann ekkert í sjónvarpinu núna. Með körfuna þá hef ég áhuga á Keflavíkurliðinu. Veiran setti svakalegt strik á Keflavíkurhraðlestina sem var alltaf að fara vinna þann stóra í ár. Svo hef ég þurft að elda mun meira svo ég hef náð að bæta mig í eldhúsinu á þessum tímum.

– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?

Keflavík og Vestfirðirnir. Vestfirðirnir eru mínir uppáhalds því það er fallegasti staður landsins. Keflavík – heima er best!

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

Spila fótbolta, verða betri í golfi og vera duglegur að grilla.

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

Ég ætlaði heim til Íslands að njóta sumarsins með fjölskyldunni og vinum. Ætlaði á völlinn hjá mínum mönnum í Keflvík í Inkasso deildinni en þetta verður að bíða aðeins.

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

Tilveran hefur verið sérstök. Maður fer lítið annað en til Eggerts félaga míns og í búðina svo tilveran er frekar einföld þessa daganna en maður kemst í gengum þetta.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Ég nota mikið Messenger til að heyra í fjölskyldu og vinum á Íslandi. Svo rífur maður bara í tólið þegar afi hringir.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Ætli það yrði ekki mamma? Svo myndi hún segja öllum öðrum fréttir.

– Ertu liðtækur í eldhúsinu?

Já ég á mína rétti sem ég er góður í. Frekar einfaldur samt.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Mér þykir gaman að grilla. Kjúklingurinn er alltaf góður hjá mér.

– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Íslenskur fiskur.

– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?

Kjötfars er ekki uppáhaldið mitt.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Eplaköku.

– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?

Kjúkling og sæta kartöflu.

– Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni? 

Hvernig heldur þú að Keflavíkingum muni ganga í Inkasso-deildinni í sumar?

Ég held að þeir verði besta liðið í sumar. Þeir verða í besta standinu og munu fá á sig fá mörk. Sóknarþunginn mun vera gríðarlegur því þeir eru með svakalega breidd fram á við. Þið verðið að mæta á völlinn til að sjá þessa dýrð sem er að fara eiga sér stað fyrst að ég get það ekki.

Áfram Keflavík!

Sjáið viðtalið við Ísak í rafræna blaði Víkurfrétta.