Keflavíkurkirkja: Söngleikur frumsýndur um næstu helgi
Um næstu helgi verður frumsýndur í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju söngleikurinn Kraftaverk á Betlehemstræti. Söngleikurinn, sem er fyrir börn og fullorðna á öllum aldri, segir frá því á gamansaman hátt þegar gistihúsaeigandinn Benjamín lætur græðgina hlaupa með sig í gönur. Alls koma 25 börn frá Suðurnesjum að sýningunni sem er mjög fjörug með grípandi tónlist.
Verkið er eftir Lowell Alexander í þýðingu Ágústar Jakobssonar og þykir þýðingin í senn auðskiljanleg og hnyttin. Leikstjóri er Guðjón Davíð Karlsson og tónlistarstjórn er í höndum Arnórs Vilbergssonar.
Verkið verður frumsýnt næstkomandi laugardag, 28. nóvember, kl. 15. Aðrar sýningar verða á sama tíma 29. nóvember og 5. og 12. desember. Miðaverð er 800 kr.