Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Keflavíkurkirkja: Málþing og opið hús um helgina
Föstudagur 18. apríl 2008 kl. 11:45

Keflavíkurkirkja: Málþing og opið hús um helgina

Málþing verður í Kirkjulundi um helgina undir yfirskriftinni „Þá þú gengur í Guðs hús inn - um breytingar og varðveislu á kirkjum. Á sunnudaginn verður svo opið hús í kirkjunni þar sem byggingarsaga Keflavíkurkirkju verður sýnd í máli og myndum.

Kjalarnessprófastsdæmi og Keflavíkurkirkja standa að málþingi og fræðslustofu um varðveislu og breytingar á kirkjum. Þar verður verða rædd þau margvíslegu sjónarmið sem tengjast endurbyggingum og breytingum á kirkjuhúsum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Málþingið stendur frá kl. 10-13. Aðalfyrirlesari er dr. Matthias Ludwig, fæddur 1964 og guðfræðingur að mennt. Hann hefur einnig lagt stund á nám í byggingaverkfræði og listasögu. Til ársloka 2007 var hann ráðgjafi við kirkjubyggingastofnun þýsku mótmælendakirknanna (EKD) við Filippsháskólann í Marburg. Síðan þá hefur hann starfað á eigin vegum sem ráðgjafi á sviði kirkjubygginga og kirkjulistar.

Aðrir fyrirlesarar eru dr. Gunnar Kristjánsson prófastur í Kjalarnessprófaststdæmi, Þorsteinn Gunnarsson arkitekt, Ólöf Nordal myndlistarkona, Árni Sigfússon bæjarstjóri, Erla Guðmundsdóttir æskulýðsfulltrúi, dr. Hákon Leifsson organisti og Sigurjón Pétursson framkvæmdarstjóri.

Viðfangsefni málþingsins er að kynna og ræða sjónarmið varðandi varðveislu og breytingar á eldri kirkjuhúsum. Þar koma til listrænar áherslur, stefna í friðunarmálum, þarfir safnaðarins, staða kirkjunnar í samfélaginu og fjárhagsleg sjónarmið. Allir sem taka til máls hafa mikla reynslu á sínu sviði og hafa unnið að málefninu um lengri og skemmri tíma.

Að auki verður hugað sérstaklega að aðstæðum safnaðarins í Keflavík og kirkjuhúsinu þar. Byggingarsaga og hugmyndafræði Keflavíkurkirkju verður til umfjöllunar í máli og myndum og fyrirhugaðar endurbætur á kirkjunni kynntar.

Að málþinginu loknu verður áhugasömum boðið til fræðslustofu (work shop) þar sem dr. Matthias Ludwig mun leiða hópastarf um kirkjurými Keflavíkurkirkju í ljósi helstu strauma í þessum fræðum í Þýskalandi.

Fræðslustofan stendur frá kl. 14-18 á laugardeginum 19. apríl og verður framhaldið sunnudaginn 20. apríl frá kl. 9-14. Hluti af þeirri dagskrá er guðsþjónusta safnaðarins kl. 11-12 og opið hús sem tekur við að henni lokinni.