Keflavíkurkirkja bítlaáranna í kvöld
– Tímamótakvöld í Keflavíkurkirkju
Mikið stendur til í Keflavíkurkirkju. Þann 15. febrúar verður helgidómurinn aldargamall og eru hátíðarhöldin reyndar löngu hafin. Í upphafi síðasta árs tókum við að rifja upp hin ýmsu tímabil í hundrað ára sögu Keflavíkurkirkju. Þar hefur kennt ýmissa grasa en mikið hefur jú gerst á löngum tíma og margs er að minnast.
Í kvöld, fimmtudagskvöld, kemur einn af þekktari sonum Keflavíkur í heimsókn. Magga Kjartans ætlar að segja frá stefnumótum sínum við kirkjuna. Hann lék sér ásamt öðrum börnunum á kirkjulóðinni, söng í barnakórnum og hjálpaði til við að skrifa upp messuskrá fyrir kirkjugesti og notaði til þess kalkipappír.
Skemmtilegast verður þó vafalítið að heyra sögur af fyrstu kynslóð fermingardrengja sem vildu vera í háhæluðum skóm og með axlarsítt hár. Hvernig brugðust klerkur og meðhjálparar hans við þeim aðstæðum?
Magnúsi til halds og trausts verður kórinn hans, Sönghópur Suðurnesja og fléttar hann frásögnina saman við þau lög sem hann og aðrir fulltrúar 68 kynslóðarinnar í Keflavík sömdu og gerðu ódauðleg.
Tímamótakvöld er fimmtudaginn 15. janúar og hefst dagskráin kl. 20:00. Allir eru velkomnir, segir í tilkynningu frá Keflavíkurkirkju.