Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

 Keflavíkurhjartað alltaf á sínum stað
Laugardagur 12. maí 2012 kl. 07:35

Keflavíkurhjartað alltaf á sínum stað

-Sönghópur Suðurnesja og Brokkkórinn með tónleika í Keflavík í dag: „Lofa frábærum tónleikum,“ segir Magnús Kjartansson, stjórnandi kóranna.


Sönghópur Suðurnesja ætla að enda starfsveturinn með því að fá góða gesti í heimsókn og halda með þeim tónleika á laugardag í Kirkjulundi í Keflavík. Þá mun Brokkkórinn sem einnig er undir stjórn og undirleiks Keflvíkingsins Magnúsar Kjartanssonar koma fram með Sönghópi Suðurnesja kl. 17 á laugardag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er svona slútt á veturinn hjá þessum tveimur kórum en Suðurnesjakórinn kom í heimsókn í fyrra og er núna að bjóða hestafólkinu úr Brokkkórnum í menningarferð í bítlabæinn og helsta nágrenni. Ég ætla að fara í kynningarferð og með vönum leiðsögumanni um svæðið með gestina um Keflavík og Keflavíkurflugvöll en þeir hefa sérstaklega beðið um að fá að fara að fæðingarstað Ellýjar og Vilhjálms í Höfnum,“ sagði Magnús Kjartansson en hann er einn af gulldrengjunum úr popplandsliðinu frá Suðurnesjum.

„Það er svolítið sértakt hvernig hugarfar margra utan Suðurnesja er til svæðisins. Það er umhugsunarefni en ég nota öll tækifæri sem ég fæ til að segja fólki að Reykjanesskaginn sé ósköp svipaður og aðrir, með öflugri menningu, íþróttum og góðu mannlífi og þar sé gott að búa. Erfiðleikar í atvinnulífinu um þessar mundir er önnur saga og munu vonandi líða hjá fyrr en síðar,“ segir Magnús.

Magnús stýrir fleiri kórum en þessum tveimur en hann segist alltaf hlakka til að koma vikulega til Keflavíkur á söngæfingu hjá Sönghópi Suðurnesja. Hann lofar frábærri skemmtun á laugardaginn þegar kórarnir sameinast. „Gestirnir úr brokkkórunum eru eins og nafnið gefur til kynna hestafólk og það hefur mjög gaman af söng en það sama má auðvitað segja um Suðurnesjafólkið mitt. Þetta verða létt og skemmtileg lög, söngperlur sem allir hafa gaman af. Það er ekki amalegt að vera í Kirkjulundi því þar er einstaklega góður hljómur og gaman að mæta með 50-60 manna kór þangað.“

Keflavíkurhjartað er alltaf á sínum stað hjá Magga Kjartans og hann þreytist sjaldan á því að halda uppi merkjum Suðurnesja. Hann er ákaflega stoltur af nýjustu tónlistarstjörnunum sem koma úr bítlabænum og nefnir þar Valdimar, Of Monsters and Men og Hjálma. Svo þarf hann að venjast því að fá olnbogaskot frá Hafnfirðingum á heimaleikjum FH í knattspyrnunni en Magnús hefur búið í Hafnarfirði hálfa ævina og flutti þangað frá Keflavík eftir unglingsárin. „Já, þeir bjóða mér í FH-stúkuna en svo þegar ég stekk upp eins og korktappi þegar Keflavík skorar þá koma olnbogaskotin. En það er í lagi, ég þoli þau alveg,“ segir Maggi og hlær.


Tónleikarni á laugardaginn verða sem fyrr segir kl. 17:00 í Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju. Aðgangseyrir er kr. 1000.

Mynd: Sönghópurinn að syngja í Keflavíkurkirkju.