Keflavík rokkar á Akureyri
- Queen messa og lög Rúnars Júlíussonar
Það er óhætt að segja að Keflavík láti ljós sitt skína á Akureyri um komandi helgi laugardaginn 5. maí en þar stíga á stokk Kór Keflavíkurkirkju og synir Rúnars og flytja tónlist þótt ólík sé.
Kór Keflavíkurkirkju mun flytja Queenmessu í Akureyrarkirkju á laugardeginum kl. 16:30 en söngvari er enginn annar en norðanmaðurinn Jón Jósep Snæbjörnsson sem tók þátt í flutningi messunnar í Keflavík á Ljósanótt við góðar undirtektir. Með í för er hljómsveit og stjórnandinn Arnór B. Vilbergsson sem starfaði um árabil á Akureyri.
Þeir bræður Júlíus og Baldur, synir Rúnars Júlíussonar, munu svo slá í tónleika á Græna hattinum um kvöldið og flytja sama prógram og flutt var í Hljómahöll fyrir fullu húsi en þar verður kynnt tónlist og ævi þessa eilífðarrokkara.