Keflavík Music Festival: Lokakvöld - myndir
Lokakvöld tónlistarhátíðarinnar Keflavík Music Festival fór fram í gær með fjölmörgum tónleikum í Reykjaneshöllinni og skemmtistöðum Reykjanesbæjar. Stemmningin náði hámarki í Reykjaneshöllinni þegar bæði Tinie Tempah og plötusnúðurinn Nicky Romero spilu sín vinsælustu lög og ætlaði allt um koll að keyra.
Fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita hættu við að koma fram þar sem þau töldu að aðstandendur hátíðarinnar hefðu ekki staðið við gerða samninga. Þar á meðal voru ástralski rapparinn Iggy Azalea, Ólafur Arnalds, Sísí Ey, Sóley, Röyksopp, Legend, Steed Lord, Mistery Boy, Bloodgroup og Sykur.
Kvöldið í Reykjaneshöllinni hófst með suðurnesjasveitinni The Big Band Theory og á eftir þeim kom karlakórinn Fjallabræður, en á þeim tíma voru syndsamlega fáir mættir í höllina. Næstir á svið voru strákarnir í Valdimar og fjöldinn fór að streyma inn. XXX Rottweiler hundarnir fylgdu á eftir og myndaðist stemmning meðal tónleikagesta. Þá var komið að mjúkum tónum hafnfirska r&b söngvarans Friðriks Dórs, en á eftir honum kom eitt stærsta nafn hátíðarinnar, rapparinn Tinie Tempah.
Rífandi stemmning var í höllinni og stigmagnaðist hún með hverju laginu sem hann tók. Breski rapparinn á smelli á borð við „Pass Out,“ „Frisky“ og „Written In The Stars“ sem hafa öll fengið mikla spilun í íslensku útvarpi.
Síðastur á svið var plötusnúðurinn ungi, Nicky Romero, og tryllti hann lýðinn með taktfastri „house“ tónlist. Meðal áhorfenda mátti sjá þónokkra með grímur í stíl við þær sem tónlistarmaðurinn notaði í myndbandið við lag sitt, Toulouse.
Myndir frá kvöldinu má nálgast í ljósmyndasafni Víkurfrétta.
Chase & Status héldu uppi stuði í Tuborg tjaldinu.
Hljómsveitin Valdimar er ein vinsælasta hljómsveit landsins og tróð í gær upp í Reykjaneshöllinni.
XXX Rotweiler hundar voru öflugir.
Hollenski plötusnúðurinn Nicky Romero.
VF-myndir/ POP, HBP, JÁB, ÓAM