Keflavík í poppskurn í Heiðarskóla
Nemendur á unglingastigi í Heiðarskóla frumsýndu söngleikinn Keflavík í poppskurn á árshátíð skólans sem haldin var hátíðleg þriðjudaginn 1. apríl. Sú hefð hefur skapast innan skólans að allir nemendur í 1.-7.bekk stíga á svið og flytja atriði undir leiðsögn umsjónarkennara en eldri nemendur flytja leikrit sem æft er undir stjórn leikstjóra sem vinna með leikhópinn að undangengnum leikprufum.
Að þessu sinni var það áðurnefndur söngleikur sem varð fyrir valinu og koma þar fram hæfileikaríkir krakkar sem leika, syngja og dansa auk þess að sýna hinar ýmsu listir í ótrúlega skemmtilegri uppfærslu. Það eru þær Guðný Kristjánsdóttir, María Óladóttir og Heiðrún Björk Sigmarsdóttir sem leikstýra uppsetningunni en verkið var samið af nokkrum kennurum skólans og lögin eru flest eftir keflvíska poppara eða hafa verið flutt af þeim.
Aukasýningar fyrir almenning verða miðvikud. 2. apríl kl.16.00 og fimmtud. 3. apríl kl.20.00 á sal Heiðarskóla. Miðaverð aðeins 1000 kr.