Keflavík 80 ára á morgun
Ungmenna- og íþróttafélag Keflavíkur fagnar 80 ára afmæli á morgun og verður þess minnst með ýmsum hætti næstu daga. Á morgun, sjálfan afmælisdaginn, verður öllum iðkendum, foreldrum, þjálfurum og öðrum velunnurum Keflavíkur er boðið að koma og þiggja skúffuköku í íþróttahúsinu við Sunnbraut B-sal frá kl. 16:00 – 18:00. Um kvöldið er öllum stjórnarmönnum deilda félagsins ásamt mökum boðið að koma og þiggja léttar veitingar í félagsheimili Keflavíkur.
Sunnudaginn 4. október verður boðsgestum boðið til opnunar á sögusýningu kl. 14:00 til 16:00 í félagsheimili Keflavíkur. Sýningin verður svo opin almenningi frá kl. 16:00 – 18:00 sama dag. Áformað er að sýningin standi yfir í ca. tvær til þrjár vikur efir aðsókn. Opnunartími verðu auglýstur á heimasíðu félagsins www.keflavik.is
Í tilefni afmælisins kemur út vegleg bók undir heitinu Saga Keflavíkur í 80 ár, sem Eðvarð T. Jónsson hefur ritað. Bókin verður kynnt á sögusýningunni og verður til sölu á skrifstofu félagsins. Þess má geta að glefsur úr bókinni voru birtar í síðasta tölublaði Víkurfrétta.