Keflavík fer aldrei úr mér
Lífsfærniskóli með keflvískar rætur
Guðni Gunnarsson, Keflvíkingur og heilsufrömuður, segir að heimabærinn sinn fari aldrei úr sér. Hann segir að margt af því sem hann vinni að í dag eigi rætur að rekja heim til Keflavíkur.
„Þegar ég var að alast upp í Keflavík voru möguleikarnir óteljandi; herinn, flugvöllurinn, ferðalög, enska tungumálið, sjómennskan og allt þar á milli hafði áhrif á mig og mótaði mína tilvist og lífsfærni,“ segir Guðni.
Hann segir að vettvangur foreldra sinna hafi bæði verið sársaukafullur og gjöfull. Mamma sín hafi kennt sér að taka á móti lífinu með opið hjarta en því hafi líka fylgt vonbrigði og sársauki.
Mamma góður kennari
„Það hefur enginn kennt mér meira en mamma,“ segir hann með hlýju. „Pabbi kenndi mér hinsvegar um orsök og afleiðingu. Þó hann hafi verið fjarverandi með litla viðveru á heimilinu, enda sjómaður, þá sáði hann í mig mörgu, þar á meðal orðatiltækjum. Til að mynda sagði hann oft: „Sýndu mér vini þína og ég skal sýna þér hver þú ert.“ Í þessu er mikil viska sem ég hef tileinkað mér.“
Guðni segir það gott að fara til æskustöðvanna, hvort sem það er í huganum eða á bíl, og leitar hann oft í grunninn í skrifum sínum en hann hefur skrifað margar metsölubækur um heilsu, heilrækt, lífsspeki og nú síðast lífsfærni.
„Mér verður oft hugsað til gúanósins heima, því þegar vel viðraði þá streymdi lyktin inn um stofugluggann og mamma opnaði þá út um eldhúsgluggann og hleypti þessu í gegn. Það var ekki hjá þessu komist – frekar en ýmsu í lífinu en ef þú skilur orsökina og getur valið viðbragðið þá er afleiðingin valkvæm,“ segir hann brosandi.
Tækifærin á netinu
Hann segir eitt af tækifærum sínum í Covid hafi verið að færa vinnuna yfir á netið. Hann hafi verið byrjaður á því en eins og með marga aðra rafræna þjónustu þá flýtti ástandið því ferli. Hann fór að streyma hugleiðslum á morgnana og fann hve það gaf honum mikið að gefa af sér á þennan máta.
„Í kjölfarið fór ég að hugsa um færni fólks í lífinu og hugmyndin af Lífsfærniskólanum fæddist og snýst námið um valfærni, varanlega velsæld og auðlegð. Hér er ég að opna upp á gátt verkfærakistu mína og kenna fólki að nýta hana. Háþróað heilræktarkerfi GlóMotion sem ég hef unnið að í áratugi er hér lagt undir en það sameinar líkamsþjálfun, hugrækt, núvitund, lífsspeki og næringarfræði undir einn hatt sem við nefnum GlóMotion heilrækt,“ útskýrir hann.
Með tilkomu rafræna Lífsfærniskólans geta allir stundað nám við Rope Yoga Setrið, á sínum hraða og sínum forsendum og styrkt sig til velsældar. Stundað valfærni og segir Guðni að nú er góður tími til þess. Hann er ekki í neinum vafa um að slíkt sé kærkomið og segir: „Alveg eins og mamma hleypti lyktinu úr gúanóinu inn um einn glugga og út um hinn, getum við valið að hleypa áskorunum sem koma til okkar í gegnum okkur og út um eldhúsgluggann – ef við viljum og erum valfær. Verkfærakistan er það öflug. Það má því með sanni segja að ég get farið úr Keflavík en Keflavík fer aldrei úr mér.“
Nánari upplýsingar um Lífsfærniskólann, GlóMotion-lífsfærni ráðgjafanámið og námskeiðið Mátt athyglinnar má finna á nýrri heimasíðu Rope Yoga Setursins, www.rys.is.
Guðni veitir sömuleiðis upplýsingar í síma 843-6200.