Karvel Ögmundsson 100 ára í dag
Í dag fagnaði Karvel Ögmundsson 100 ára afmælisdegi sínum, en haldið var upp á afmælið að Garðvangi í Garði þar sem Karvel dvelur. Fjöldi gesta var í afmælisveislunni og margir afkomenda hans sem eru á annað hundraðið. Uppruni Karvels er rakinn til Snæfellsnes en foreldrar hans voru þau Ögmundur Andrésson (f.5. júlí 1855) frá Einarslóni á Snæfellsnesi og Sólveig Guðmundsdóttir (f. 2. september 1873) frá Purkey á Breiðafirði. Árið 1928 kvæntist Karvel Önnu Olgeirsdóttur frá Hellissandi og varð þeim sjö barna auðið, fimm dætra og tveggja sona. Konu sína missti Karvel eftir langvarandi veikindi 1959 og yngri soninn Eggert árið 1962, en hann fórst í sjóslysi við Hólmsbergið í Keflavík. Árið 1963 kynntist Karvel Þórunni Maggý Guðmundsdóttur (Síðar landsþekktum miðli) og bjuggu þau saman í þrettán ár og eignuðust einn son Eggert. Karvel ól upp með henni fjóra syni og eina dóttur.