Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Karlakórinn syngur Suðurnesjapopp
Miðvikudagur 4. apríl 2007 kl. 15:04

Karlakórinn syngur Suðurnesjapopp

Karlakór Keflavíkur æfir þessa dagana af kappi fyrir stórtónleika sem haldnir verða um miðjan maí í Stapa. Söngdagskráin er með breyttu sniði því um verður að ræða léttpoppaða dagskrá þar sem allir helstu synir Bítlabæjarins munu koma við sögu og taka lagið með kórnum.

Að sögn Guðjóns Sigurbjörnssonar, formanns KK, er þetta liður í þeirri viðleitni kórsins að brydda upp á nýjungum í starfsemi hans. Markmiðið sé að laða að hvorutveggja fleiri áheyrendur og nýja kórmeðlimi.
„Frá því að við fengum Guðlaug Viktorsson sem kórstjóra hefur lagavalið breyst nokkuð en hann er einnig stjórnandi Lögreglukórsins, sem þekktur er fyrir lagaval í léttari kantinum. Guðlaugur hefur komið með þennan ferska blæ sem hefur gert það að verkum að mikil fjölgun hefur orðið í kórnum að undanföru. Við höfum verið að fá inn nýja og yngri menn“ sagði Guðjón í samtali við VF.

„Við erum núna að láta útsetja fyrir okkur töluvert af þessu gamla Suðurnesjapoppi eftir okkar popparana okkar sem lengi vel héldu uppi merkjum íslenskrar dægurlagamenningar og gera enn. Lögin verða útsett fyrir karlakór og hljómsveit og meiningin er að fá sem flesta af poppurunum til liðs við okkur á tónleiknum. Það er búið að tala við þá flesta og þeir hafa tekið vel í það.“
Guðjón segir að þrátt fyrir að bryddað sé upp á þessum nýjungum verði karlakórinn árfram trúr arfleið og hefðum íslenskra karlakóra. „ Við munum áfram syngja gömul, góð  og rammíslensk karlakórslög, þeim má auðvitað alls ekki henda fyrir róða“.

Í ljósmyndasafni VF hér á síðunni má sjá nokkrar myndir sem Ellert Grétarsson smellti af á æfingu hjá Karlakór Keflavíkur nú í vikunni.

 

Mynd: Karlakór Keflavíkur á æfingu. VF-mynd: elg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024