Karlakórinn í Njarðvíkurkirkju í kvöld
Þriðju og síðustu tónleikarnir í vortónleikaröð Karlakórs Keflavíkur verða í Njarðvíkurkirkju í kvöld, þriðjudaginn 11.maí og hefjast klukkan 20:30.
Segja má að segja kórinn sé með tvískipta efnisskrá. Í fyrri hluta hennar ríkir skemmtileg austur-evrópsk stemning en á henni eru verk frá Eistlandi, Rúmeníu,Tékklandi, Póllandi og Búlgaríu. Undirleikurinn með þessum verkum er harmonikka og kontrabassi í höndum þeirra Vadims Federovs og Leifs Gunnarssonar og setur sterkan svip á lögin. Eins og oft er með verk frá þessum löndum þarf flytjandinn að vera bæði leikari og sögumaður og tekst kórnum það vel upp.
Eftir hlé skiptir kórinn um gír og býður upp á fjögur ný verk á efnisskránni. Þetta eru verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur og Báru Grímsdóttur við ljóð Tómasar Guðmundssonar og Páls Ólafssonar. Kórinn heiðrar einnig minningu Siguróla Geirssonar en Siguróli var stjórnandi kórins á tímabili og hefði orðið 60 ára 19. maí. Kórinn flytur þrjú verk eftir Siguróla við ljóð eftir hann sjálfan, Jónas Hallgrímsson og Þorstein Eggertsson.