Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Karlakórinn Heimir heldur tónleika í Njarðvíkurkirkju
Fimmtudagur 17. febrúar 2011 kl. 10:36

Karlakórinn Heimir heldur tónleika í Njarðvíkurkirkju

Karlakórinn Heimir heldur tónleika í Njarðvíkurkirkju föstudagskvöldið 25. febrúar kl. 20:30. Kórinn hefur ekki sungið á þessum slóðum síðan hann var í slagtogi með Hljómum í Stapa fyrir tæpum 6 árum. Talsmaður kórsins segir að löngu sé kominn tími til að sækja Suðurnesjamenn heim, enda hafi kórinn alltaf átt hér vinsældum að fagna. Hann vonar að íbúana sé farið að þyrsta í Heimistónleika.

Á söngskránni eru mörg þekkt lög fyrir karlakóra: íslensk þjóðlög og ættjarðarsöngvar, gömul lög af fyrri vinsældarlistum kórsins, mansöngvar og hestavísur að ógleymdum kröftugum óperukórum eftir Verdi og Wagner. Tvennt vekur sérstaka athygli. Stjórnandi kórsins í aldarfjórðung er nú í leyfi frá störfum en Helga Rós Indriðadóttir hefur nú stjórn á Heimiskörlum. Helga Rós er Skagfirðingur í húð og hár. Hún starfaði í mörg ár sem óperusöngvari við óperuna í Stuttgart en er nú á heimaslóðum þar sem hún fæst við söngkennslu auk þess að syngja sjálf við hin ýmsu tækifæri.

Hitt vekur einnig athygli að með í för ungur harmonikusnillingur, Skagafirðingurinn Jón Þorsteinn Reynisson frá Mýrarkoti á Höfðaströnd. Hann leikur með kórnum í nokkrum lögum á ítalska Borsini Bayanina takka-harmóniku. Jón Þorsteinn flytur einnig nokkra ópusa af nýútgefnum diski sínum, Caprice, með sígildum verkum gömlu meistaranna. Aðspurð segir Helga Rós að það sé alveg ný reynsla að stjórna kór, hingað til hafi hún ekki snúið baki í áheyrendur. „Það er mjög gaman að spreyta sig á þessu nýja hlutverki, Karlakórinn Heimir er gríðarlega gott hljóðfæri og býður upp á mikla möguleika í túlkun, enda leggja menn sig alla fram og láta vel að stjórn.“


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024