Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Karlakór Keflavíkur syngur fyrir Velferðarsjóð Suðurnesja
Þriðjudagur 7. desember 2010 kl. 13:56

Karlakór Keflavíkur syngur fyrir Velferðarsjóð Suðurnesja

Karlakór Keflavíkur efnir til jólatónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju fimmtudaginn 16. desember nk. kl. 20:00. Á tónleikunum syngur kórinn jólalög og fær til liðs við sig fjölda einsögnvara. Aðgangseyrir að tónleikunum verður 1500 krónur og mun aðgangseyrir allur renna til Velferðarsjóðs Suðurnesja.
„Markmiðið er að gera góða og skemmtilega kvöldstund í kirkjunni, fylla hana af fólki og leggja vel af mörkum til Velferðasjóðs Suðurnesja,“ segir Páll Hilmarsson hjá karlakórnum.

Á dagskránni verða um 20 sálmar og jólalög og meðal annars mun Karlakór Keflavíkur skreyta sig með mörgum af þekktustu jólalögum sem til eru. Mikil breidd verður í þeim lögum sem sett hafa verið á dagskrá og ætla kórfélagar að keyra á tveggja tíma jólaveislu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við stillum aðgangseyri í hóf og viljum fylla kirkjuna,“ segja kórfélagar. Eins og áður segir er aðgangseyrir 1500 krónur en einnig er tekið við frjálsum framlögum sem renna öll í Velferðarsjóð Suðurnesja. „Við viljum geta gefið sem mest af okkur,“ segja kórfélagar.

Talsverð fjölgun hefur orðið í Karlakór Keflavíkur frá því í haust og eru kórfélagar nú um 40 talsins en 6 nýir söngvarar hafa bæst við hópinn á síðustu vikum. Karlakórinn býður til sviðaveislu á haustin þar sem álitlegum söngvurum er boðið í matarboð og söng. Sviðaveislan í ár skilaði góðum árangri. „Við borðum bara svið og innmat í þessari veislu en að þessu sinni voru reyndar ekki hrútspungar,“ sagði viðmælandi blaðsins en tók það fram að það hafi ekki skipt máli því á staðnum hafi verið það margir karlpungar.

Mynd: Frá æfingu Karlakórs Keflavíkur í KK-salnum í gærkvöldi. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson