Karlakór Keflavíkur: Lofar góðri skemmtun í Andrews Theatre um helgina
Nú stendur yfir lokaundirbúningur fyrir útgáfutónleika Karlakórs Keflavíkur sem verða í Andrews Theatre á Vallarheiði um helgina. Með þessum tónleikum er KK að fylgja úr hlaði geisladisk sem kom út á Ljósanótt og hefur fengið góðar viðtökur, að sögn Guðjóns Sigbjörnssonar, formanns kórsins. Félagar kórsins eru fullir tilhlökkunar enda um stórtónleika að ræða með þátttöku helstu Keflavíkurpopparanna.
Nýi diskurinn heitir „Þú lýgur því!“ og er afkvæmi verkefnis frá því vorið 2007 þegar haldnir voru veglegir tónleikar í Stapa. Þar voru teknar fyrir vinsælar dægurlagaperlur úr smiðjum helstu Keflavíkurpoppara sem komu fram með kórnum á tónleikunum.
Á disknum er að finna 14 lög úr smiðju Rúnars Júl, Magnúsar Þórs, Jóhanns Helgasonar og Magnúsar Kjartanssonar. Þeir koma allir fram með kórnum á tónleikunum um helgina en Magnús er hljómsveitarstjóri. Þá er einnig að finna lög eftir Gunnar Þórðarson á disknum. Kynnar á tónleikunum verða stórsöngvararnir Stefán Íslandi og Davíð Ólafsson og ekki er loku fyrir það skotið að þeir muni einnig taka lagið.
Auk laganna á disknum verða flutt nokkur lög sem ekki komust á diskinn enda á nógu að taka úr lagasmiðjum Keflavíkurpopparanna. „Það gefur því auga leið að lagavalið var nokkuð erfitt enda úrvalið mikið af góðum lögum sem henta vel fyrir kóraútsetningar,“ segir Guðjón. Um tvenna tónleika verður að ræða, á laugardaginn kl. 16 og sunnudaginn kl. 20.
„Strákarnir eru fullir tilhlökkunar og mér heyrist að það sé nokkur eftirvænting á meðal almennings fyrir þessum tónleikum. Fólk man vel eftir tónleikunum í fyrra þar sem allir skemmtu sér konunglega og að sjálfsögðu verður það einnig svo um helgina,“ sagði Guðjón.