Karl Austann sýnir í Saltfisksetrinu
Myndalistamaðurinn Karl Austann Vernharðsson opnar á laugardag sýningu á verkum sínum í Listsýningarsal Saltfiskseturins í Grindavík.
Karl mun þar sýna ný olíumálverk sem hann hefur unnið að undanfarið, en hann hefur á löngum ferli sýnt víða, bæði hérlendis og erlendis, beggja vegna Atlantshafs. Sýndi hann meðal annars í Keflavík fyrir margt löngu, en hann er nú búsettur á Vallarheiði.
Í samtali við Víkurfréttir sagðist Karl eitt sinn hafa numið hjá Eiríki Smith sem hefur unnið mikið með myndlistarfólki á Suðurnesjum. „Hann kenndi mér m.a. að maður verði að ráða við tilviljanirnar í olíulitunum.“
Karl lýsir myndum sínum sem symbolískum fantasíum og segir þær vekja upp margar spurningar. Hann bætir því við að hann hlakki mikið til að sýna í Saltfisksetrinu þar sem rýmið sé afar skemmtilegt og vel fallið til sýninga.
Loks má geta þess að Karl sýnir á næstunni í Ráðhúsi Reykjavíkur ásamt börnum sínum, Jóhanni Smára og Sigrúnu Lindu. Sú sýning opnar í lok apríl.
Mynd: Karl með pensilinn í hönd. VF-mynd/Þorgils