Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Miðvikudagur 6. október 1999 kl. 20:09

KÁRI GUNNLAUGSSON „LEGGUR SPJÖLDIN Á HILLUNA"

Kári Gunnlaugsson „leggur spjöldin á hilluna“ á alþjóðavettvangi og í efstu deild á Íslandi: Löngum knattspyrnuferli lokið! Keflvíkingurinn Kári Gunnlaugsson, knattspyrnudómari, ákváð síðastliðið vor að keppnistímabilið 1999 yrði sitt síðasta sem aðstoðardómara á alþjóðavettvangi og í efstu deild á Íslandi og lauk hann ferlinum með sæmd í bikarúrslitaleik KR og ÍA um þar síðustu helgi. Úr barnmargri útgerðarætt frá Árskógsströnd í Eyjafirði Kári er fimmti í átta systkina hópi foreldra sinna Gunnlaugs Kárasonar og Baldvinu Guðlaugsdóttur en faðir hans lést fyrir þremur árum síðan. „Já, við erum mörg systkinin. Ebba er elst, síðan koma Margrét, Björgvin, Gunnlaugur, ég sjálfur, Albert, Víðir og Andrea. Mamma átti Ebbu fyrir tvítugt og Andreu eftir fertugt og er því 25 ára aldursmunur á elsta og yngsta barninu. Ebba, móðir þeirra Óla Þórs og Jóa Magnússona, og Margrét búa hér í Keflavík og Björgvin náði sér í konu hér, Hafdísi Sigurbergsdóttur, og hafði með sér norður yfir heiðar. Pabbi rak eigin útgerð, Otur hf., og fóru bræður mínir strax með honum í sjómennskuna. Þó náði Björgvin því að verða Íslandsmeistari með Keflavík sumarið1969 en 1971 fór hann norður og gerðist skipstjóri á bát útgerðarinnar.“ Fjórtán ára í fyrsta meistaraflokksleiknum „Ég steig mín fyrstu spor í meistaraflokki Reynis frá Árskógsströng 1968, þá 14 ára gamall, og náðum við því bræðurnir að spila 4 saman í liðinu. Eftir gagnfræðapróf frá Reykjarskóla í Hrútafirði 1971 flutti ég suður til Möggu systur í atvinnuleit og vegna þess að fótboltinn sunnan heiða heillaði. Þegar suður var komið dreif Siggi Steindórs mig á æfingar en hann var allt í öllu hjá KFK á þessum tíma.“ Tíu ára meistaraflokksferill „Í 1. deildarlið Keflvíkinga komst ég 1974 og lék ég með liðinu samfellt til 1984 en þá voru fótboltaskórnir teknir til annarra nota. Meistaraflokksleikirnir urðu eitthvað yfir 100 og leiknir 12-14 Evrópuleikir að auki. Eins og hjá mörgum knattspyrnumönnum hófst ferillinn í fremstu víglínu og endaði í þeirri öftustu. Þegar ég hætti þrítugur að aldri voru farnir að vera talsverðir árekstrar milli vaktavinnunnar sem ég er í, fjölskyldunnar og æfinganna.“ Vildi halda tengslunum og hjálpa Keflavík „Undir lok ferilsins fór að bera á því að Keflvíkinga vantaði dómara og því ákváð ég að taka dómarapróf sem ég gerði 1984 og var ég farinn að dæma í yngri flokkunum síðasta tímabilið. 1988 tók ég landsdómarapróf og var útnefndur haustið 1989 til dómgæslu í efstu deild. Í efstu deild dæmdi ég tímabilin 1990, 1991 og 1992 en eftir það hef ég einungis verið línuvörður í efstu deild og dæmt í næstefstu deild. Það vill svo til að í kjölfar Heimsmeistarakeppninnar 1990 urðu miklar umræður um að sérhæfa dómarastörfin í aðaldómara og línuverði því þar kom í ljós að langflestir aðaldómararnir voru slakir á línunni. KSÍ tilnefndi mig til FIFA 1993 sem línuvörð á alþjóðavettvangi og ári síðar var staðan skilgreind sem aðstoðardómari.“ Eftirlaunaaldur dómara 45 ár „Frá 1993 hef ég dæmt meira en þrjátíu alþjóðlega leiki í líklegast milli 15-20 þjóðlöndum auk vináttulandsleikja hér heima. Hjá FIFA gildir sú regla að dómarar og aðstoðardómarar hætta störfum 45 ára gamlir og þar sem ég næ þeim áfanga í nóvember ákváð ég síðastliðið vor að þetta tímabil yrði einnig mitt síðasta í efstu deild hérlendis. Þetta tilkynnti ég á dómaraþinginu í vor og var mjög ánægjulegt að fá að ljúka ferlinum á bikarúrslitaleik á Laugardalsvellinum, hápunkti tímabilsins.“ Deildarstjóri fíknefnadeildarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar Það eru ekki aðeins í knattspyrnunni sem hlutirnir eru að breytast hjá Kára því 1. september síðstliðinn tók hann við sem deildarstjóri fíkniefnadeildar Tollgæslunnar í Keflavíkurflugvelli en hjá tollinum hefur Kári starfað síðan 1977. „Ég hóf störf í afleysingum 1977 og urðu starfsárin 22 samtals þann 1. júlí síðastliðinn. Það er mjög ánægjulegt að geta tekið þátt í að efla fíknefnaeftirlitið á þessum tímapunkti. Í deildinni eru nú 7 starfsmenn þar af tveir sérhæfðir með fíkniefnaleitarhunda og vonir standa til að hægt verði að efla eftirlitið enn frekar. Þá hefur gott samstarf við aðrar stofnanir hérlendis sem erlendis verið aukið og vonir standa til að Schengen samstarfið gefi aukin tækifæri til alþjóðlegrar samvinnu í baráttunni gegn fíkniefnunum.“ Hve gott er fíkniefnaeftirlitið í Flugstöðinni? „Það er alltaf erfitt að meta svona störf og oft talað um að við náum aðeins um 5% þeirra fíkniefna sem til landsins berast. Almenningur hengir sig oftast á það sem sjáanlegt er og gleymir því að stærstur hluti starfsins er unnin á bakvið tjöldin. Við eru á vaktinni 24 klst. á sólarhring, 365 daga á ári og að baki einu fíkniefnamáli liggur oft margra mánaða vinna. Flutningsleiðirnar til Íslands eru margar en samvinnan á milli eftirlitsaðila hérlendis mjög góð. Ég vona að ráðamenn þjóðarinnar geri alvöru úr loforðum sínum um aukið fjármagn og herta baráttu gegn fíkniefnadraugnum. Nýtilkomin stórfundir fíkniefna hljóta að sýna öllum hve mikil alvara er á ferðinni í vímuvandanum.“ Mikill Keflvíkingur í mér Er Kári Gunnlaugsson þá að hverfa af vettvangi íþróttanna fyrir fullt og allt? „Dómaraskírteinið er þó enn gott og gilt og aldrei að vita hvað ég geri fyrir félag mitt. Ég er mikill Keflvíkingur í mér, meiri en margur innfæddur, og finnst alltof fáir fyrrverandi leikmenn leggja sig fram fyrir félagið eftir að ferlinum lýkur. Ég er stoltur af því að hafa verið formaður KFK við sameiningu íþróttafélaganna sex í Keflavík 30. júní 1994 og að hafa verið í aðalstjórn Keflavíkur síðan, sem ritari, gjaldkeri og nú sem varaformaður.“ Viðtal: JAK Myndir: JAK o úr einkasafni
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024