Karen J. Sturlaugsson hlaut lundann
Samhliða Lundakvöldi Kiwanisklúbbsins Keilis var ákveðið að árlega yrði veittur gripur til einstaklings sem að mati nefndar hefur látið gott af sér leiða og/eða unnið óeigingjarnt starf í þágu bæjarbúa og/eða bæjarfélagsins Reykjanesbæjar.
Verðlaunagripurinn er uppstoppaður Lundi á steini ásamt verðlaunaplötu og skjali. Nefndinni bárust fjölmargar tillögur um einstaklinga sem allir voru vel að því að komnir að fá þessi verðlaun í ár.
Lundakvöld Keilis var haldið fyrir stuttu í KK salnum og var húsfyllir, en þar gæða menn sér á reyktum lunda ásamt meðlæti.
Nefndin var sammála að Lundann 2009 hljóti Karen J. Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Karen fæddist rétt fyrir norðan Boston í Bandaríkjunum og faðir hennar er vestur Íslendingur, en íslenskir foreldrar hans fóru vestur um haf í kringum 1920. Karen er með háskólapróf í tónlist og stærðfræði og ólst upp í mjög músíkalskri fjölskyldu en faðir hennar er trompetleikari og lúðrasveitarstjórnandi. Karen fluttist hingað til lands 1978 og byrjaði að kenna við Tónlistarskólann í Keflavík 1988. Karen stofnaði hið vinsæla Big band sem síðar fékk nafnið Léttsveit og hún er stjórnandi Lúðrasveitarinnar.
Saga Lundans
Lundinn var fyrst afhentur árið 2002 og þá hlutu hann þeir Vilhjálmur Þorleifsson og Óskar Ívarsson starfsmenn áhaldahúss Reykjanesbæjar sem höfðu unnið í áratugi við að fegra bæinn.
Árið 2003 hlaut Lundann Ólafur Oddur Jónsson heitinn, sóknarprestur í Keflavíkursókn sem í mörg ár hélt uppi umræðum og fræðslu gegn sjálfsvígum.
Tómas Knútsson hlaut Lundann árið 2004, en Tómas setti á fót Bláa herinn sem hefur unnið ötullega við að hreinsa strandlengjuna og þá hefur hann stjórnað Sportköfunarskóla Íslands.
Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík og bæjarfulltrúi hlaut Lundann fyrir árið 2005.
Steinþór hefur látið margt gott af sér leiða og unnið óeigingjarnt starf fyrir bæjarfélagið. Steinþór var upphafsmaður að lýsingu Bergsins og síðan hátíðinni Ljósanótt sem fylgdi í kjölfarið.
Nefndin var sammála um að Lundann 2006 skyldi hljóta Sigfús B. Ingvason prestur í Keflavík.
Nefndin var sammála um að Lundann 2007 skyldi hljóta Erlingur Jónsson. Erlingur hefur látið til sín taka á árinu í forvarnarstarfi í Reykjanesbæ og hefur ritað ófáar greinar um skaðsemi eiturlyfja.
Nefndin var sammála að Lundann árið 2008 skyldi hljóta, Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður í Björginni – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja.
Ragnar Örn Pétursson
form. Lundanefndar Keilis