Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kapellu tvívegis forðað frá glötun
Sunnudagur 18. júlí 2010 kl. 17:24

Kapellu tvívegis forðað frá glötun

Kapella slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli fékk andlitslyftingu fyrir helgi þegar fyrrverandi og núverandi starfsmenn slökkviliðsins komu saman til að mála og bera á tréverkið. Kapellan var vígð af herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands þann 15. desember árið 2000 á 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Kapellan hafði áður verið í ratsjárstöðinni í Rockville á Miðnesheiði og þar áður í við Höfn í Hornafirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í janúar 1999 kom fram hugmynd meðal slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli að bjarga Kapellunni í Rockville frá glötun, en eftir lokun stöðvarinnar komust skemmdarvargar á kreik og höfðu þegar unnið nokkur spjöll á Kapellunni ásamt öðrum mannvirkjum. Umrædd Kapella á sér nokkuð merka sögu.

Amerískur verktaki, „Metcalf Hamilton“ og íslenskur undirverktaki, „Sameinaðir Verktakar“ reistu húsið sem skrifstofu fyrir eftirlitsaðila með uppbyggingu Radsjárstövarinnar við Stokksnes hjá Höfn í Hornafirði árið 1953. Árið 1956, þegar framkvæmdum var lokið, var húsinu breytt í kapellu, að beiðni staðarmanna, frekar en að rífa hana niður. Skömmu eftir virkjun radsjárstöðvarinnar kom í ljós að byggingin truflaði radarinn, svo annað hvort var að rífa húsið eða flytja það til.

Starfsmenn stöðvarinnar byggðu því nýjan grunn á viðurkenndum stað og íslenskir verktakar sem voru á svæðinu fluttu bygginguna í heilu lagi eitt kvöldið með tækjum sínum og þáðu nokkra kassa af bjór fyrir vikið og þótti báðum býttin góð. Í upphafi var engin bjalla í Kapell­unni en einhvern veginn innviklaðist slökkviliðið í að útvega bjöllu, sem fékkst af gömlum slökkviliðsbíl í Bandaríkjunum og fylgir bjallan Kapellunni enn í dag.

Árið 1988 var starfsemi radsjárstöðvarinnar á Stokksnesi breytt og fyrir atbeina góðra manna var Kapellan flutt frá Höfn til Rockville að fengnu samþykki Bygginarnefndar Varnarsvæða. Árið 1997 var starfsemi breytt í Rockville og notkun allra mannvirkja þar hætt, þeim lokað og hiti tekinn af þeim. Fljótlega tók að bera á skemmdarvörgum á svæðinu og skemmdarverk unnin á hinum ýmsu mannvirkjum þar ásamt Kapellunni.

Slökkviliðsmenn, sem þekktu til Kapellunnar, rann í brjóst áhugi til að forða henni frá frekari skemmdum og komu að orði við slökkviliðsstjóra með uppástungu um að bjarga henni frá glötun með því að flytja hana á lóð slökkviliðsins og gera hana upp sem Kapellu fyrir slökkviliðsmenn, sem gjarnan þurfa að vinna á stórhátíðisdögum, ennfremur sem athvarf slökkviliðsmanna sem ef til vill þurfa á áfallahjálp að halda eftir stórslys.

Slökkviliðsstjóri bar hugmyndina upp við yfirmann varnarliðsins en hann bauð slökkviliðsstjóra að gera það sem hann teldi kapellunni og hans mönnum fyrir bestu. Að fengnu leyfi Bygginganefndar, enn einu sinni, var húsið flutt á lóð slökkviliðsins, með góðri hjálp verktaka á svæðinu.

Svo ólíklega vildi til að sami starfsmaður hins íslenska verktaka hefur verið viðriðinn tilfærslu á þessu húsi öll þrjú skiptin sem það hefur verið fært til á þessu 44 ára tímabili þ.e. Stefán Ólafsson verkstjóri hjá Íslenskum Aðalverktökum.

Slökkviliðsmenn tóku til óspilltra mála og hafa unnið við uppbyggingu þessarar Kapellu ýmist í fríum sínum eða á milli stunda á vaktinni. Margir fleiri en slökkviliðsmenn hafa lagt hönd á plóginn ýmist einstaklingar eða fyrirtæki auk íslenska ríkisins með fjárframlögum, efni og/eða vinnu. Altaristöflu málaði Erla Káradóttir slökkviliðsmaður.

Athyglisverð staðreynd
Nokkuð athyglisverð staðreynd fylgir kapellunni. Strax í upphafi truflaði hún starfsemi radarstöðvarinnar á Stokksnesi. Að endingu var stöðin á Stokksnesi lögð niður. Kapellan var því flutt í Rockville á Miðnesheiði. Það varð hlutskipti Rockville að vera lagt niður. Kapellan var því aftur flutt og nú í Varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli. Það varð hlutskipti Varnarliðsins að vera lagt niður. Kapellan þjónar þó enn sínum tilgangi enda slökkviliðið ennþá til staðar en í annarri mynd en áður.