Mannlíf

Kannski blundar Sumarliði í okkur öllum
Mánudagur 2. apríl 2018 kl. 06:00

Kannski blundar Sumarliði í okkur öllum

- Það byrjaði allt í Keflavík

Dag einn mætti ungur maður í upptökuheimilið Geimstein til Rúnna Júll og sagðist hafa fengið hugljómun, hann ætlaði að verða tónlistarmaður. Rúnni stakk bassanum í samband og Bjartmar Guðlaugsson söng fyrir hann 30 lög í einum rykk. Hann er enn að 40 árum síðar og lag hans Þegar þú sefur situr í efsta sæti vinsældarlista þessa dagana.
Bjartmar er síðasta söngvaskáld ársins 2018 en fjallað verður um feril hans og tónlist í Bergi, Hljómahöll fimmtudaginn 5. apríl.

„Þetta byrjaði allt í Keflavík,” segir Bjartmar með áherslu þegar ég hitti hann á Ránargötunni á fimmtudegi. Hann situr á móti mér hárprúður að venju og það er festa í augunum. Kona hans, María Haraldsdóttir, hafði skroppið á pósthúsið en þau eru önnum kafin við að dreifa nýju plötunni hans, Blá nóttin.
Bjartmar fæddist á Fáskrúðsfirði en kom til Keflavíkur eina vertíð með fjölskyldu sinni sex ára gamall og bjó þá á Vesturgötunni. Þaðan fór fjölskyldan til Vestmannaeyja þar sem Bjartmar ólst upp og byrjaði að yrkja ljóð og mála. Ljóðin voru svar hans við óttanum, óttanum við karnorkuvá, Kúbudeiluna og Jón Múla útvarpsþul, sem flutti hin válegu tíðindi utan úr heimi. Þá var betra að búa sér til fallegan heim hvort sem það var í ljóði eða myndum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tónlist í færeyska blóðinu
Þegar spurt er um foreldra hans hlær hann dátt og segir þá hafa verið hamingjusama í 60 ár og hann hafi átt yndislega barnæsku. „Ég get því ekki kennt henni um neitt. Móðir mín kom til Fáskrúðsfjarðar frá Færeyjum á fiskiskútu og pabbi náði henni strax á bryggjunni. Það var þeirra gæfa.” Þess má geta að Magnús Þór og Jóhann Helgason eru báðir hálfir færeyingar svo einhver tónlistaráhrif virðast búa í eyjablóðinu en Bjartmar gerði einmitt sinn fyrsta texta sem gefinn var út á plötu fyrir Jóhann Helgason þegar hann söng með hljómsveitinni Logum.

„Mér var sagt að ég gæti aldrei lifað ef ég yrði listamaður svo ég lærði málaraiðn,” segir Bjartmar og brosir. „Skólastjórinn og frændi minn Helgi Grétar Kristinsson útvegaði mér svo vinnu hjá Bigga Guðna málara árið 1984 og ég flutti með henni Maríu minni til Keflavíkur.”

Rekinn inn að semja í rigningu
Bjartmar hafði áður aðeins samið lög fyrir aðra og ætlaði aldrei að fara út í það að syngja. Ég ætlaði bara að fá mér góða flytjendur en Rúnar tók það ekki í mál. „Þú syngur þetta sjálfur,” sagði hann og það var útrætt mál.

Bjartmar var sáttur og ánægður í Keflavík, ef það rigndi rak Biggi Guðna hann inn til að semja og það var stutt í upptökuheimilið til Rúnna. „Okkar kynni voru einstök frá upphafi en ég hafði hitt Rúnna þegar ég var að spila á trommur í Eyjum, þá komu Hljómar til að spila og sviðið var rýmt fyrir þá. Hann varð minn nánasti vinur strax frá upphafi og við héldum alltaf sambandi, hittumst alltaf einu sinni í viku síðustu árin, á mánudögum klukkan þrjú.” Það er augljóst að söknuðurinn er mikill, „hann fór alltof fljótt frá okkur.” Lagið Negril fjallar einmitt um Rúnna Júll og fæddist í síðustu ferð þeirra saman til Jamaica. „Við vorum að horfa á sólarlagið og Rúnar sagði að það væri það fallegasta sem hann hefði séð, nema kannski sólarlagið á Garðskaga. Því miður var þá stutt í sólarlagið hjá honum en hann fór nokkrum mánuðum síðar. Þetta lag og ljóð fæddist í sorginni, menn eiga helst ekki að þegja tilfinningar sínar í hel. Rúnni Júll var eins og fallegt ljóð.”

Þotugnýr og ómalbikaðar götur
María er komin úr pósthúsinu og skammar Bjartmar fyrir að bjóða mér ekki kaffi. Hún þekkti vel til í Keflavík en hún hafði dvalið þar sem barn með ömmu sinni og afa á Hátúninu. „Ég man eftir ómalbikuðum götum, þotugný og berjamó í holtinu þar sem engin byggð var.” María og Bjartmar giftu sig í Keflavíkurkirkju, „og þar fæddist dóttir okkar Berglind, hún er sannur Keflvíkingur,” segir Bjartmar og hlær hressilega. „Við gleymdum alveg að velja okkur lag fyrir athöfnina en vorum svo heppinn að organistinn, Siguróli Geirsson heitinn, tók það upp hjá sjálfum sér að spila A Whiter Shade of Pale svo það varð bara lagið okkar,” segir Bjartmar.

Bjartmar söng lagið Þegar þú sefur fyrir Maríu þegar þau kynntust, svo það hefði getað komið út á fyrstu plötu hans þótt það líti fyrst dagsins ljós í dag. Í fyrstu mætti halda að hér væri á ferðinni fallegt ástarleg en raunin er önnur. „Lagið er tileinkað öllum sem eru með svarthol í sálinni og flýja inn í drauma sína, ef þeir mæta þá einhverju betra þar,” segir Bjartmar alvörugefin og þegir um hríð, hann bætir svo við. „Þeir sem þegja yfir ofbeldisverkum eru að viðhalda slíkum verknaði.”

Þú hefur sterka réttlætiskennd?
„Mér er alveg sama hvað það er, ég bendi á það sem er að. Mér ber skylda til þess –  ég horfi ekki framhjá hlutunum.”

Þar erum við komin að helsta styrkleika Bjartmars en segja má að hann sé þjóðfélagsrýnir og ádeiluskáld með næmt auga fyrir því mannlega. Hann er trúr sínu og hefur til að mynda aldrei selt lög sín eins og sumir. Ég hefði getað gert það og gert það sem mér dytti í hug fyrir vextina en þá vissi ég að ég myndi sitja á feik milljónum. Ég þarf þess ekki. Í staðin líður mér betur í hjartanu.”
Sumarliði, hippinn og fúll á móti lifa góðu lífi og það er við hæfi að spyrja eins og svo margir: Hver er þessi Sumarliði?

„Kannski blundar Sumarliði í okkur öllum, ég held það,” segir Bjartmar leyndardómsfullur að lokum.