Kanínubændur á Ströndinni
Bræðurnir Þór og Freyr Karlssynir hófu holdakanínurækt á Auðnum á Vatnsleysuströnd fyrr í sumar. Þeir festu kaup á rúmgóðu húsnæði sem nýtist einnig sem geymsluhúsnæði, t.d. fyrir tjaldvagna, búslóðir o.fl. Silja Dögg Gunnarsdóttir fór í hávaðaroki út á Vatnsleysuströnd í síðustu viku til að heilsa uppá bræðurna og kanínurnar.Erfitt að fá holdakanínur„Við fengum um hundrað kanínur í lok júní en við erum komnir með um 200 stykki núna. Flestar koma þær frá Egilsstöðum en við höfum fengið þær alls staðar að. Ef fólk veit um holdakanínur þá má það gjarnan hafa samband við okkur og láta okkur vita, því það eru ekki svo margar til í landinu. Við ætlum að bíða með að fara að flytja þær inn, fyrst viljum við sjá hvernig reksturinn gengur“, segir Þór.HerramannsmaturÍslendingar eru ekki enn orðnir vanir að borða kanínukjöt en þeir sem hafa smakkað það eru sammála um að það sé herramannsmatur. Það er einnig mun fituminna en kjúklingakjöt og safaríkara. Freyr og Þór eru búnir að hafa samband við nokkur veitingahús og Glóðin hefur m.a. sýnt áhuga á að fá kjöt frá þeim eftir fyrstu slátrun sem verður á næstu dögum. „Kanínukjöt er mjög vinsælt erlendis, ég held bara að Íslendingar líti ennþá á kanínur sem gæludýr. En við horfum björtum augum á framtíðina því það tók þjóðina einnig smá tíma að venjast þeirri tilhugsun að borða hænur. Það er eitt annað kanínubú á Íslandi og þeir hafa ekki haft undan að taka pantanir, þannig að eftirspurn er mun meiri en framboð eins og er og verðið eftir því“, segir Freyr en tekur fram að þeir geti á þessu stigi ekki gert sér grein fyrir hver verðþróunin verður.Í verslanir eftir áramótDýrunum er slátrað þegar þau eru tveggja og hálfs mánaða gömul. Bræðurnir eru enn með of fáar kanínur til að þeir geti framleitt kjöt í verulegu magni, en í febrúar/mars eiga þeir von á að geta boðið stórmörkuðum og fleiri veitingahúsum að kaupa kjöt af sér.Hvað kom til að þið fóruð út í slíkan rekstur?Við erum aldir upp í sveit en störfum sem sjómenn. Við höfum átt kanínur sem gæludýr síðan við vorum smá guttar og þótti spennandi að prófa þetta. Við ætluðum reyndar fyrst að rækta feldkanínur en þær féllu í verði þannig að við ákváðum að prófa holdakanínurækt“, segir Þór.Ef lesendur vita af góðum holdakanínum til kaups eða vilja leigja geymslupláss í Tjaldvagnaleigunni Jötunheimar hjá Þór og Frey þá er hægt að hafa samband við þá í síma 424-6698/698-6253 (Þór) eða 424-6868/868-9697 (Freyr)