Kammerkórinn Orfeus - nýstofnaður atvinnumannakór á Suðurnesjum
Nú í haust var stofnaður kór sem hlotið hefur nafnið Kammerkórinn Orfeus. Nokkrir söngvarar af Suðurnesjum hafa tekið hér höndum saman og vilja leyfa Suðurnesjamönnum að njóta krafta sinna á margvíslegan hátt. Í kórnum eru reynslumiklir kór - og einsöngvarar sem ýmist eru útlærðir eða í söngnámi og eiga það allir sameiginlegt að búa og vinna hér á Suðurnesjunum.
Markmið kórsins er að bjóða upp á faglegan og vandaðan flutning á kórsöng, dúettum og einsöng sem hentar við öll tækifæri, hvort sem er í gleði eða sorg. Sem dæmi um fjölbreytta starfsemi kórsins má nefna skemmtidagskrá fyrir árshátíðir og aðrar skemmtanir þar sem léttleiki og leikgleði verður áberandi, söng við brúðkaup og útfarir, tónleikahald og ýmsar aðrar uppákomur.
Meðlimir kórsins telja að þetta sé góð viðbót við það öfluga kórastarf hér á svæðinu. Sérstaða þessa kórs er þó sú að í honum eru atvinnusöngvarar sem geta boðið uppá margvíslega vel flutta tónlist (dægurtónlist jafnt sem klassíska) með stuttum fyrirvara. Kórinn leggur metnað sinn í að bjóða uppá breiða og fjölbreytta efnisskrá, faglega framkomu og að sjálfsögðu frábæran söng.
Nafnið kemur úr grískri goðafræði en Orfeus var fremstur meðal tónlistarmanna og skálda, hann lék svo vel á hörpu sína að náttúran öll, dýr og menn stöldruðu við til að hlusta á dáleiðandi tónana. Það má því segja að dáleiðandi tónar Orfeusar muni nú hljóma um Suðurnesin og vonandi mun það falla í góðan jarðveg - bæði hjá dýrum og mönnum! Þeir sem vilja komast í samband við Orfeus geta hringt í síma 661 7719 (Bylgja) og 8641582 (Dagný) eða sent tölvupóst á [email protected].
Á myndinni eru: Margrét Hreggviðsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Rósalind Gísladóttir, Erla Melsteð, Birna Rúnarsdóttir, Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Elmar Þ. Hauksson, Guðmundur Sigurðsson og Steinn Erlingsson. Á myndina vantar Rúnar Þ. Guðmundsson.