Kaffitár býður til haustfagnaðar í dag
Kaffitár býður til haustfagnaðar í dag í kaffibrennslunni á Stapabraut 7 í Njarðvík. Fagnaðurinn verður milli kl. 17 og 19 og er öllum opinn.
Á haustfagnaðinum verður kynnt nýtt einkennismerki Kaffitárs. En svo verður þetta "upphressandi" kaffihátíð, eins og tekið er til orða á vef fyrirtækisins. Gestum verður boðið að skoða brennsluna og kynnt verða þrjú kaffiræktarsvæði, Afríka, Indónesía og Suður-Ameríka. Leikin verður suðræn tónlist.
Þá verður gestum boðið upp á kaffi, kaffidrykki og léttar veitingar í kaffihúsinu við Stapabraut.