KAFFISALA Á ÚTIVISTARDEGI Í KALDÁRSSELI NÆSTA SUNNUDAG
Í sumarbúðum KFUM og K í Kaldárseli hafi dvalið í sumar 254 strákar og stelpur á aldrinum 7-12 ára. Þar var boðið upp á leiki, gönguferðir, íþróttir og fræðslu um kristna trú og Biblíuna. Kaldársel er skammt frá Hafnarfirði og þar er náttúran stórfengleg. Má þar nefna vinin Valaból, móbergsfjallið Helgafell, eldstöðina Búrfell, spennandi hella og gróin leiksvæði. Á útivistar deginum 22.ágúst næstkomandi gefst gott tækifæri til að skoða sumarbúðirnar og umhverfi þeirra ásamt því að kaupa kaffiveitingar. Á hádegi hefst löng gönguferð sem lýkur kl. 14 því þá hefst samvera þar sem brugðið verður á leik, sungnir Kaldárselssöngvar og flutt hugleiðing. Eftir samveruna hefst kaffisala til styrktar uppbyggingarstarfi í Kaldárseli. Þá geta þeir sem vilja farið í hellaferð en gott er að hafa vasaljós með í þá ferð. Allan daginn verður boðið upp á leiki fyrir börnin við skálann og undir kvöldið verða grillaðar pylsur. Það verður því eitthvað fyrir alla í Kaldárseli næsta sunnudag. Hægt verður að nálgast óskilamuni úr sumarbúðum KFUM og K á skrifstofu félagsins til 1.október. Stjórnin